Að þessu sinni eru 11 fatahönnuðir að taka þátt í RFF og er Hildur Yeoman ein þeirra. Ég fékk aðeins að skyggnast inn í hugarheim Hildar:
Segðu mér aðeins frá nýju línunni?
Ég er að vinna með óhefðbundin og oft hálf ósmekkleg efni, í bland við lúxusefni. Skoða lágmenningu, glys, gleði og pastel liti. Þetta umbreytist svo í einhverja snilld. Það verður mikið af svokölluðum “showpieces” en það eru flíkur þar sem ég þarf ekki að hafa áhyggjur af fjöldaframleiðslu-möguleikum og hugmyndarfluginu er gefinn laus taumur. Ég lofa því mjög skemmtilegri sýningu. Fyrir mér á tíska að vera skemmtileg!
Hvar lærðir þú og vegna valdir þú að verða fatahönnuður? Ég lærði fatahönnun í Listaháskólanum. Ég hef alltaf haft áhuga á listsköpun. Ég var á listabraut í FB, og ákvað svo að stefna frekar á fatahönnun í Listaháskólanum en myndlist líklega vegna áhrifa frá Fashion Tv með Jeannie Baker sem var sýnd á RÚV og George Michael tónlistarmyndbanda.
Hvert stefnir þú í framtíðinni? Að halda áfram að gera það sem ég elska og hafa gaman.
Hvers vegna tekur þú þátt í RFF? Þetta er tækifæri til að halda flotta sýningu, reyna að ná til nýs hóps og að sjálfsögðu vinna með skemmtilegu fagfólki og vinum mínum.
Stjörnumerki og áhugamál fyrir utan tísku? Ég er bogamaður og hef áhuga á listum almennt, ferðalög og samvera með vinum og fjölskyldu.
Myndirnar hér að neðan eru frá Sýningu Sögu Sig og Hildar Yeoman, Hamskipti sem sýnd var í Hafnarborg í vetur. Fatnaður og teikning er eftir Hildi og ljósmyndun í höndum Sögu Sig.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.