Reykjavík Fashion Festival stóð alla helgina en undirrituð sá allar sýningarnar, tók þátt í pallborðsumræðum og naut þess að hitta alla þessa skemmtilegu erlendu og innlendu gesti sem komu.
Það er ljóst að við eigum hæfileikaríka hönnuði sem þó eru að gera mismunandi hluti svo við erum langt frá því að geta verið talin einhæf eða með einhvern einn ríkjandi stíl.
Sýningar föstudagsins í tímaröð…
Mundi
Mundi er ekki “bara hönnuður” hann er einnig mjög hæfileikaríkur myndlista- og kvikmyndagerðarmaður. Mundi sýndi í bílakjallara Hörpunnar og hóf sýninguna á magnaðri stuttmynd eftir sjálfan sig þar sem persónur klæddust fötum frá honum. Ævintýraleg mynd sem sýndi íslenska náttúru, kulda og húmor. Fatnaðurinn einkenndist af mynstruðum prjónaflíkum eins og endra nær, aðallega í svörtu og hvítu, jakkar, herðaslár og kjólar úr brúnu ullarefni og dún- og vindjakkar. Þessi lína var öll mjög nothæf og mig persónulega langaði í flest allar flíkurnar fyrir næsta vetur.
Hildur Yeoman
Hildur var án efa með skemmtilegustu sýninguna. Hildi er eins og Munda margt til lista lagt og er frábær teiknari og myndlistakona fyrir utan að vera hönnuður. Hún skapaði ævintýarveröld í Silfurbergs salnum í Hörpu, Daníel Ágúst tók lögin Xanadu og Ladyshave og dansarar, fyrirsætur og börn sýndu, dönsuðu og renndu sér á hjólaskautum um sviðið. Fatnaðurinn var aðallega “showpieces” (sýningareintök fyrir þetta tilefni) sem voru listilega útsaumuð en mátti þó sjá falleg nærföt, hekluð hálsmen og og áprentaðar flíkur sem væntanlega munu koma í sölu í haust. Sannarlega frumleg, skemmtileg og flott sýning sem kom öllum í gott skap, sniðugt að byrja hátíðina á þessum gleðiboltum tveim.
Kron by KronKron
Kron by KronKron voru með glæsilega sýningu. Stórkostlegar mynstraðar flíkur, með litríkum og mynstruðum sokkabuxum og skóm, allt stíliserað á þann hátt að manni fannst það samt ekki “of mikið” af hinu góða. Eftir að hafa slegið í gegn með skóna sína get ég ekki annað séð en að þau Magni og Hugrún munu slá í gegn með fatnaðinn líka. Bravó!
Kalda
Kalda systur héldu sig við kuldann. Þær voru með mínimalískar flíkur, aðallega í svörtu, hvítu og gráu, skyrtur, pils og kjólar. Mynstur sem minntu á urð og grjót og íslenska jökla. Mikið um beinar línur og nothæfar flíkur. Ef einhver stíll er sérlega íslenskur þá myndi ég veðja á Kalda.
ÝR
Ýr Þrastardóttir stóð uppúr þetta kvöld. Sniðin, smáatriðin og heildarútkoman myndaði fullkomna heild og línu sem myndi sóma sér vel á stórum sýningum í París, New York og London. Ég var eiginlega bara dolfallin, þessi hönnuður kemur mér sífellt á óvart, mér fannst hún æðisleg í fyrra en hún náði að toppa sig núna. Stíllinn er orðinn fágaðri og klassískari en samt nær hún að hafa þetta sérstaka “je ne sais quoi”, eigið handbragð sem maður þekkir hana fyrir. Sýningin var sett upp eins og “installation”, fyrirsæturnar stilltu sér ein af annarri upp á palla við tónlist sem rann árangurlaust saman og ég held ég hafi bara fengið gæsahúð, ég gleymdi meirasegja að mynda nema rétt í byrjun.
Kormákur & Skjöldur
Þeir eru Savile Row Íslands. Guðmundur Jörundsson hönnuður nær á frábæran hátt að nota efnivið breskra sjéntilmanna og hanna úr því föt sem maður ímyndar sér að fínustu hreppsstjórar Íslands hafi klæðst í gamla daga. (Þeir hafa þó sennilega ekki verið svona smekklegir?). Jakkaföt, vesti og yfirhafnir fyrir íslenska karlmenn sem vilja klæðast tímalausum klassískum fatnaði með stíl. Sýningin samanstóð af myndarmönnum á öllum aldri sem sýndi að það er ekki einhver ein týpa sem passar í þennan fatnað, hann passaði þeim öllum fullkomlega og þeir voru flottastir.
Ég mæli með að þú kíkir á http://www.nowfashion.com að sjá góðar myndir frá sýningunum.
Hér er brot af því besta frá hverri sýningu helgarinnar. Þar sem Daníel Ágúst tók lagið Ladyshave svo eftirminnilega á sýnigu Hildar Yeoman var það fengið lánað í undirspilið:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=BNgKl4IucYA[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.