Óðar dregur að Reykjavík Fashion Festival og ég er að fjalla um hönnuði hátíðarinnar einn af öðrum, að þessu sinni stendur Elínrós Líndal stjórnandi og framleiðslustjóri ELLU fyrir svörum.
Segðu okkur aðeins frá nýju línunni.
Nýja línan okkar V – sem sýnd verður á tískuvikunni hér á landi er fjórða tískulína ELLU. Innblásturinn var mikið til fenginn úr seinni heimstyrjöldinni eins og nafngift línunnar ber með sér. Við notum mikið af þeim aðferðum sem algengar voru á fimmta áratug síðustu aldar í klæðskurði. En efnin eru mjög nútímaleg, m. a. má finna silkimjúk og gæðaleg efni frá Loro Piana í línunni. Við höldum áfram með hné-síddina, en bjóðum einnig upp á aðeins styttri pils og kjóla sem minna eilítið á þriðja áratuginn. Við erum með meiri vídd í línunni okkar og megin litir eru: grár, appelsínugulur, svartur og túrkis blár. Lauren Hutton var tískumjúsan okkar að þessu sinni og gefur línunni ferskan og frjálsan blæ.
Við munum bjóða upp á leðurtöskur í þremur stærðum í haustlínunni okkar sem og belti. Þessir fylgihlutir verða fáanlegir í svörtu en einnig í rauðu leðri sem minnir mikið á Étienne Aigner töskurnar sem vinsælar voru á áttunda áratugnum. Við verðum með helgar-tösku með sér hólfi fyrir skó (eða kampavínsflösku ef því er að skipta). Við verðum einnig með clutch sem og tösku fyrir vinnuna.
Inn í ilmvatnslínu ELLU mun einnig bætast við ilmurinn V – sem unnin var í samvinnu við hinn þekkta Pierre Bourdon. En þess má geta að Bourdon er eitt þekktasta “nef” Frakklands – og á hann heiðurinn af mörgum af vinsælustu ilmvatnstegundum heims.
Hvar lærði hönnuður ELLU?
Katrín María Káradóttir er yfirhönnuður ELLU. Hún hefur víðtæka reynslu á sviði hönnunar og starfar m.a. að hluta einnig sem aðjúnkt við Listaháskóla Íslands. Katrín lærði fatahönnun í Studio Bercot í Parísarborg, en á þeim tíma hafði hún þá þegar lagt stund á klæðskurð og útskrifast með sveinspróf í kjólasaumi. Hún hefur starfað fyrir tískuhús á borð við John Galliano og Christian Dior. Í klæðskeradeild ELLU starfa þær Lilja Björg Rúnarsdóttir og Inga Guðlaugsdóttir. Lilja sem stýrir deildinni okkar er útskrifaður kjólasveinn og klæðskeri – en um þessar mundir leggur hún stund á meistaranám í greininni ásamt vinnu sinni hjá ELLU. Inga er kjólameistari. Sjálf er ég með BA – gráðu í sálarfræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Sem og meistaragráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík (MBA).
Hvers vegna valdir þú fatahönnun?: Ég hafði lengi leitað mér að klassískum vinnufatnaði sem og vönduðum kjólum í klassískum stíl. Þegar tískuhúsin í Evrópu fóru í auknum mæli að færa framleiðslu sína suður til Kína – langaði mig að stofna Evrópskt tískuhús sem myndi sérhæfa sig í gæðum og hafa samfélagslega ábyrg sem eitt af megingildum sínum. En einkunnarorð ELLU eru: Environmental, listening, learning og Achieving. Við gerum hlutina á okkar hátt – vöxum lífrænt og nýtum okkur þekkingu á hinum ýmsu sviðum í daglegum rekstri. M.a. í mannauðsstjórnun, sálfræði, hagfræði, heimspeki og auðvitað hönnun og klæðskurði.
“Í miðju viðtali við nokkrar fyrirsætur búin að tilla mér á glerborð. Áður en ég vissi af var ég dottin í gegnum borðið – og sat þar föst með fæturnar upp í loftið.”
Hvert stefnir þú í framtíðinni?: Ég stefni að því að gera ELLU að alþjóðlegu fyrirtæki með aðsetur hér á landi. Við stefnum að því að ná 1% hlutdeild á Íslandsmarkaði í sölu, en innan fimm ára væri gaman að vera búin að setja upp verslanir í Norður Ameríku og Evrópu.
Hvers vegna tekur þú þátt í RFF?: Í því felast óteljandi tækifæri – en fyrst og fremst hef ég áhuga á að sýna ELLU og þá íslenska hönnun á erlendri grundu.
Stjörnumerki og áhugamál fyrir utan tísku?: Ég er fiskur – án efa sá sem syndir á móti straumnum. Áhugamál mín tengjast nánast öll tískunni – en drengirnir mínir fjórir eru afar áhugaverðir sem og hestarnir mínir sem gaman er að vera í kringum til að tæma hugann og upplifa einstaka íslenska náttúru.
Skemmtileg eða fyndin uppákoma úr tískubransanum?: Ég var blaðamaður um skeið hjá Morgunblaðinu og var í miðju viðtali við nokkrar fyrirsætur búin að tilla mér á glerborð. Áður en ég vissi af var ég dottin í gegnum borðið – og sat þar föst með fæturnar upp í loftið. Siggi Pálma með-ristjóri minn á Málinu á þessum tíma sem og ljósmyndari Morgunblaðsins veinuðu úr hlátri á meðan ég sat þarna eins og asni og gat mig hvergi hreyft. Mér var bjargað að lokum – og get núna fyrst hlegið að þessu. Ég get verið full – alvörugefin á köflum og atvik sem þessi reyna oft mikið á fullkomnunarsinna eins og mig. Reynslan hefur þó kennt mér að setjast einungis þar sem grunnurinn er sterkur fyrir. Ég held mig sumsé langt frá brothættum borðum á tískuvikum komandi tíma.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.