Það hefur sjálfsagt farið framhjá fæstum sem lesa skrif mín að ég er frekar mikið á andlegu línunni en í þeim efnum finnst mér best að upplifa hlutina fyrir sjálfa mig og dæma svo.
Með það að hugarfari, eftir að hafa ætlað í nokkra mánuði, lá leið mín loks upp í Kjós til hans Heimis Loga að prófa sweat í fyrsta sinn.
Sweat-ið gengur þannig fyrir sig að steinar eru hitaðir og bornir inn í tjald þar sem fólk situr í hring umhverfis þá en yfirleitt eru farnar fjórar umferðir. Tjaldinu er lokað og einfaldir söngvar sungnir en farið er út úr tjaldinu á milli umferða. Heimir lýsir sweat-inu sjálfur svo:
„Í þetta sweat eru allir velkomnir. Hér er leitast við að skilja óttann og þjáninguna eftir í tjaldinu. Skilja það eftir sem er að aftra okkur í því að ganga á vegi sálar okkar. Skilja það eftir sem stoppar okkur í því að vera það sem við erum í raun og veru. Gefa okkur hugrekki til að sýna allan okkar mikilfengleika sem er ekkert lítill.“
Þessi athöfn var þróuð af frumbyggjum Ameríku sem notuðu sweat í lækningaskyni en þeir töldu að með því að svitna hreinsaði líkaminn sig af eiturefnum. Sweat var að þeirra mati einnig talið losa um spennu og streitu og veita færi á andlegum upplifunum.
Ef þú ert ekki mikið fyrir að kyrja indjánasöngva, tala um hvernig þér líður eða tjá þakklæti þitt upphátt þá er þetta kannski ekki athöfn fyrir þig. Engu að síður hvet ég þá sem hafa áhuga á að prófa þetta að láta vaða og taka fullan þátt í ofantöldu þrátt fyrir mögulegan kjánahroll – svona fyrst að þú ert nú hvort sem er mætt/ur á svæðið.
Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að láta kjánalega út enda er kolniðamyrkur þarna inni og fæstir sem þarna koma hafa áhuga á því að dæma þá sem eru með því í tjaldinu.
Fyrir þá sem hafa áhuga á því að prófa er til að mynda hægt að fylgjast með næstu sweat-um á Facebook. Praktísk atriði sem gott er að hafa í huga eru að taka með sér sundföt og tvö handklæði, eitt til að liggja á inni í sweat-inu og annað til að þurrka sér með eftir á. Ég var í bikiníi en líka í svörtum hlýrabol yfir og stuttum náttbuxum því mér fannst persónulega óþægilegt að vera í sundfötum einum og sér (ég get samt lofað því að það er enginn að pæla í því hvernig fólk er klætt).
Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við að sweat-ið yrði mér erfiðara. Þegar ég sá þetta litla tjald varð ég hrædd um að upplifa innilokunarkennd en fann svo engan veginn fyrir því. Ef eitthvað er þá fannst mér þægilegt að sitja þarna (eða liggja þegar hitinn var orðinn mikill), upplifa hitann og leyfa svitanum að renna. Fyrst og fremst upplifði ég mikla kyrrð og jafnvægi.
Ég hélt fyrirfram að ég myndi upplifa meiri átök eða finna fyrir einhverri stórtækri breytingu á sjálfri mér.
Það er hins vegar talað um að hvert sweat sé einstakt því að það byggist svo mikið á því sem er að gerast hjá hverjum og einum í það skiptið. Sumir eru að reyna að sleppa tökunum á einhverju eða upplifa sig á krossgötum og það getur tekið meira á.
Engu að síður er þetta tækifæri til að kyrra hugann, líta inn á við og taka stöðuna á því hvernig þér líður og hvar þú ert komin/nn á þinni braut. Að mínu mati er ekkert nema jákvætt við það og hvet ég því alla áhugasama til að prófa sweat að minnsta kosti einu sinni.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.