Pjattinu barst þetta áhugaverða bréf frá karlmanni sem langaði að deila sögu sinni með okkur og skýra hvers vegna hann hafði aldrei áhuga á að kaupa undirföt handa sinni fyrrverandi.
__________________________
Hún spurði mig einu sinni hvort mér dytti nokkurntíma í hug að kaupa handa henni sexí undirföt. Ég gat ekki sagt eins og satt var heldur laug bara að mér þætti hún fallegust í engu. Satt best að segja hafði ég hugsað mikið um að kaupa aldrei handa henni undirföt því þetta atriði skiptir mig einmitt mjög miklu máli. Þó að ég hafi elskað hana og hún mig þá var ég aldrei nógu viss inni í mér til að ég færi og keypti handa henni undirföt. Fyrir mér felst rosalega mikil skuldbinding um langtíma samband í því að maður fjárfesti í dýrum blúndum handa kærustunni.
Rugluð blanda af óöryggi og stolti
Þessi hugsun mín er kannski einhverskonar rugluð blanda af óöryggi og stolti en mér er sama, það eina sem ég veit er að ég verð að vera rosalega viss um að nú sé ég í löngu sambandi til að vera tilbúinn til þess að fara út og kaupa sexí undirföt.
Það var líka eitthvað inni í mér sem sagði að kaldhæðnislegur húmor alheimsins myndi örugglega sjá til þess að við hættum saman ef ég gerði það og þessi kaldhæðni var aðal ástæðan fyrir því að ég keypti aldrei blúndubuxur og brjóstahaldara því það var ekki nokkuð leið, ekki séns í helvíti að ég færi að láta einhvern annann gaur njóta þess að klæða hana úr því sem ég hafði keypt. Ekki séns!
Ég fann aldrei hjá mér þörf til þess að kaupa svona handa henni. Þakkaði frekar bara mínum sæla fyrir hvert skipti sem ég sá hana hátta sig fyrir framan mig. Hún átti líka eitthvað af flottum undirfötum frá fyrri tíð sem ég sá hana einstaka sinnum í. Ég man sérstaklega vel eftir einu setti sem ég held að hafi verið frá Victorias Secret, svartar blúndubuxur og brjóstahaldari.
Blúndubuxurnar náðu aðeins niður á læri og voru heilar að aftan en hálf gegnsæjar að framan. Settið fór henni ekkert sérstaklega vel af því hún var svo grönn en þetta var akkúrat eitthvað sem maður hefði ímyndað sér fyrrverandi kærastinn hennar, fiðluleikarinn, myndi kaupa.
Það var ég sem fékk að draga niður um hana buxurnar
Þó að þetta hefði ekki farið henni vel þá fékk ég samt kikk út úr því að sjá hana í þessu, einfaldlega vegna þess að það var ÉG sem hafði þau forréttindi en ekki einhver annar. Það var ég sem fékk að draga niður um hana buxurnar og það var ég sem fékk að losa brjóstahaldarann og henda honum á lampa eins og fjallgöngumaður sem stingur fána í toppinn og lýsir þar með yfir sigri sínum yfir fjallinu.
Þessi tilfinning átti rætur sínar að rekja til þess hvernig við kynntumst. Ég kynntist henni þegar hún var með þessum langa, mjóa fiðluleikara. Háskólamenntaður hrokagikkur sem fór alltaf í taugarnar á mér. Ég og hún urðum smátt og smátt góðir vinir og ég fór að hugsa um leiðir til að ná henni af honum. Þær misheppnuðust flestar til að byrja með og ég fór að fá hótanabréf í tölvupósti frá kærastanum þar sem hann sagði mér að halda mig í burtu og láta mig hverfa.
Hún virtist heldur ekkert ætla að gefa sig. Sagði mér að hún elskaði hann og vildi vera með honum áfram þó að henni þætti vænt um mig og að sér fyndist ég vera “góður strákur”. Ég var samt aldrei sannfærður. Fann innra með mér að hún var ekki alveg að segja satt og viti menn –Eftir eitt ár var sigurinn í höfn!
Við höfðum farið í sitthvora áttina en þegar við hittumst aftur þá hún búin að segja honum upp. Það var að hluta til út af hótunarbréfunum hans að mér þótti alltaf alveg ótrúlega gaman að sjá hana klæða sig upp fyrir mig, í sexí undirföt, sem hann hafði keypt og gefið henni. Það var eins og að gera það með henni og kýla hann á smettið í leiðinni.
Þannig að það er skiljanlegt að ég var ekki alveg í stuði til að láta næsta gaur á eftir mér njóta þess sem ég hafði keypt handa mér sjálfum og þessari stelpu. Það var samt ekki eins og ég keypti aldrei neitt handa henni. Ég var mjög hrifinn af henni og fannst gaman að gefa henni allskonar dót, en oftast voru það hlutir sem næsti myndi kannski ekki njóta góðs af. Ég keypti t.d. ekki handa henni eyrnalokka eða hálsfestar vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að hún myndi skreyta sig með gjöfum frá mér þegar hún væri að fara á stefnumót með öðrum strák. Til hvers að vera að kaupa eitthvað sem myndi láta annann gaur falla fyrir henni?
Blóm, trefill eða peysa
Einu sinni sá ég til dæmis bláa eyrnalokka sem hefðu farið henni rosalega vel af því hún var með svo falleg blá augu, en svo sá ég hana fyrir mér með einhverjum öðrum gaur og steinhætti við. Í staðinn gaf ég henni blóm, eða peysu eða trefil eða eitthvað í þeim dúr. Ég bauð henni líka oft eitthvað fínt út að borða eða í bíó eða eitthvað sem myndi bara vera vel geymt í minningunni en ekki geymt þannig að næsti maður gæti notið góðs af því. Ég ætlaði mér ALDREI að lenda í sömu sporum og fiðlufíflið!
Allt hefur sinn endi
Í raun og veru þá er ég mjög rómantískur og bjartsýnn.
Nema hvað að það skyggir stundum á bjartsýnina. Einhvernveginn þá fæ ég það alltaf á tilfinninguna að ef ég eignast eitthvað gott, þá mun það fara frá mér fyrr en varir. Eða ég mun einhvernveginn missa það. Allt hefur sinn endi. Þetta er allavega mín reynsla, og þessi reynsla hefur mótað mig þannig að ég sé til þess að sá sem fær það góða sem ég missi, á ekki líka eftir að sleikja kremið af kökunni.
Auðvitað endaði svo sambandið okkar. Við héldum áfram að vera vinir en það var alltaf spenna á milli okkar eins og er svo oft þegar maður hættir með stelpu og ætlar svo að vera “vinur” hennar. Kynferðisleg spenna lýtur sínum lögmálum og ef maður hefur einu sinni sofið hjá manneskju þá er erfitt að gleyma því. Sérstaklega ef það er gott.
Það tók hana eitt ár að byrja með öðrum gaur
Um daginn fórum við í bíó. Mig hafði grunað það í smá tíma að hún ætlaði að fara að segja mér eitthvað. Kannski að hún væri byrjuð með öðrum strák og það kom á daginn. Nákvæmlega þessi sami grunur varð til þess að ég fór að velta mér upp úr þessum undirfata málum. Það eina sem kom mér á óvart var að það tók hana eitt ár að byrja með öðrum gaur.
“Ég fékk bara samviskubit yfir því að segja þér það ekki strax, af því við höfum verið svo góðir vinir undanfarið og mér fannst eins og ég væri að fela eitthvað fyrir þér með því að segja þér ekkert. Þú veist… af því okkur tókst að halda áfram að vera vinir,” sagði hún við mig þar sem við sátum á kaffihúsi eftir bíóið. Hún hafði alveg rétt fyrir sér, við vorum og erum virkilega góðir vinir og ég á örugglega alltaf eftir að elska hana á einhvern hátt.
Just friends…
“Ég er bara hissa á því hvað þú varst lengi að segja mér það,” sagði ég við hana. Mér fannst frábært að hún skyldi ekki hafa verið með neinum í heilt ár eftir að við hættum saman.
“Nei, í alvöru. Mér finnst frábært að þú sért að segja mér það,” minnir mig að ég hafi sagt. Ég var samt búinn að æfa ræðuna frá því hún sagði við mig á meðan tárin runnu niður kinnarnar:
“Ég veit ekki hvort ég vil þetta samband lengur, mér finnst við vera að fara í sitthvora áttina”
Mér fannst maginn á mér leka ofan í skóna. “Mig langar bara að vera heiðarleg við þig. Líka vegna þess að þú skiptir mig samt svo miklu máli og mig langar til að við getum verið vinir.”
Ég var allavega undirbúinn.
Á meðan hún sagði þetta við mig sá ég nýja gaurinn fyrir mér. Haldandi utan um hana. Kyssandi hana…. Þegar ég kom aftur til meðvitundar áttaði ég mig á því að við höfðum starað á hvort annað í töluverðan tíma. Við horfðumst í augu eins og svo oft áður.
Ég strauk hárið á henni frá andlitinu og sagði henni að mér liði eins. Að mér þætti frábært hvað við værum góðir vinir og að hún væri þýðingarmikil í lífi mínu. (Á meðan hugsaði ég ennþá um hana og nýja kærastann). Hún spurði hvort ég væri viss um að mér væri sama þó að hún væri byrjuð með öðrum manni og ég sagði auðvitað já.
Ertu viss,? spurði hún.
-Já, í alvöru, þetta er allt í lagi.
Ég var að ljúga en þetta hefði samt getað verið miklu verra. Ég var undirbúinn. Allt tekur sinn enda og ég vissi það.
Ég keypti engin undirföt!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.