Sú ákvörðun um að hætta að borða viðbættan sykur er ein sú skemmtilegasta sem ég hef tekið!
Ég ákvað fyrir um það bil fjórum vikum að hætta að borða sykur því ég er, og hef alltaf, verið með mjög slæma húð.
Ég má ekki borða eitt súkkulaðistykki og þá er ég komin með þrjár bólur daginn eftir!
Eftir að hafa prófað allskonar krem, maska, hreinsivörur og hvað eina með misgóðum árangri var fátt eftir nema að taka matarræðið í gegn.
Semsagt ástæðan fyrir þessari ákvörðun var að sjá hvort húðin mín myndi lagast ef ég hætti að borða sykur, – auk þess að sykurneysla í miklu magni er alls ekki holl.
Af hverju er sykur svona óhollur? Skýringar
Ég vildi líka komast að því hvað það er sem gerir sykurinn svona slæman svo ég lagist í rannsóknir. Málið er að við neyslu á sykri hækkar blóðsykursmagn líkamans.
Við mikla neyslu sykurs í langan tíma skapast hætta á að skaða æðar líkamans en blóðsykur þekur rauðu blóðkornin sem veldur því að þau stífna.
Við það truflast blóðrásin og kólesterólmagnið hleðst upp. Um leið þrengjast slagæðar líkamans og blóðflæði til hjartans minnkar. Með þessu aukast líkur á hjartaáfalli, það er að segja ef slagæðarnar þrengjast það mikið að allt blóðflæði til hjartans stöðvast.
Þetta eru áhrif mikillar neyslu í langan tíma en þegar svona er komið fyrir fólki eru aukakílóin einnig farin að sýna sig og sitthvað fleira.
Af hverju er sykur slæmur fyrir húðina?
Propionibacterum acnes bakterían er partur af húðflóru manna.
Bakterían lifir í svitaholum og í kirtlum burtu frá yfirborði húðarinnar en Propionibacterum acnes notar húðfeiti sem er í kirtlum í húðinni sem orkugjafa og því meira magn sem er af húðfeiti, því auðveldara á bakterían með að vaxa og að fjölga sér.
Propionibacterum acnes getur valdið skaða á kirtil frumum en þetta getur valdið bólgu í kirtlum sem getur svo valdið bólum.
Þegar blóðsykurmagn líkamans hækkar, eykst insúlín framleiðsla. Mikið insúlín eykur framleiðslur IGF-1 (insulin like growth factor) í líkamanum og IGF-1 eykur húðfeiti framleiðslu sem er kjörið fyrir vaxta umhverfi P. acnes. Svo það má vel segja að sykur er mjög mikill bóluframleiðandi.
Hverju ég breytti og hvernig kom það út?
Ég er ekki vön að borða mikinn sykur. Það helsta er kannski jógúrt með viðbættum sykri, gos af og til og svo nammi einu sinni í viku. Það er pínu trikkí að ætla hætta að borða sykur alveg en ég takmarkaði þetta þannig að ef sykur var í fyrstu fimm innihaldsefnum í vörunni, þá sleppti ég henni.
Einnig sleppi ég hunangi og öllu sýrópi. Ég hef heldur ekki lagt í sykurlausu gosdrykkina því ég er ekki viss hvernig gervisætuefni fara í mig. Kornsterkju í mat læt ég líka alveg eiga sig og ég reyni að sneiða fram hjá einsykrum eins mikið og ég get en ég borða frúktósa, því gæti ég aldrei sleppt!
Í fyrstu fannst mér eins og húðin á mér væri að versna en það gekk hratt yfir og mjög fljótlega, eða eftir sirka tíu daga, hafði hún jafnað sig.
Fyrstu dagana var ég alveg ótrúlega þreytt, geispandi allan daginn. Þetta er víst mjög algengt þegar maður er að byrja á þessu en þetta er allt annað núna!
Vanalega varð ég þreytt milli 10 og 11 á morgnanna og svo aftur milli 3 og 5.
Ég finn ekki fyrir þreytu lengur á daginn (að því gefnu að ég hafi fengið nægan nætursvefn), ég á nóg af orku og mér finnst ég eiga auðveldara með að sofna á kvöldin.
Ég fæ ennþá einstaka bólur en ég sé alveg rosalega mikinn mun, auk þess að mér finnst ég ekki vera jafn þrútin á morgnanna þegar ég vakna.
Er þetta erfitt?
Mér finnst þetta ekkert mál núna eftir að ég vandist þessu. Mér finnst einnig lítið mál að sleppa því að fá mér súkkulaðiköku eða sætindi í veislum, sem mér finnst persónulega vera alltof mikið af í veislum á Íslandi!
Ég ákvað þó að fá mér páskaegg. Við kærastinn keyptum okkur hvítt súkkulaðiegg en stelpurnar okkar fengu venjulegt. Pælingin var sú að prófa og sjá hvernig þetta myndi nú fara í húðina mína og athuga hvort ég gæti ekki alveg komist upp með að fá mér súkkulaði einu sinni í mánuði.
Ég smakkaði af báðum eggjunum en klukkutíma seinna varð ég ótrúlega þreytt og fékk svo bara illt í magann. Þá ákvað ég að henda bara í einn sjeik með ananasi, spínati, engiferi og chia fræjum. Mér leið miklu betur í maganum eftir það en eftir súkkulaðið! 🙂
Ég er alveg viss um að þetta geti langflestir og nú er það ekkert annað en að draga kallinn minn í þetta með mér. Mig langar líka til að hvetja alla til að minnka framboð sykurs í veislum og bjóða uppá eitthvað hollara. Það er svo létt. Við eigum til dæmis alveg fullt af sykurlausum uppskriftum hér á Pjattinu.
Niðurstaðan er sú að ég mun alveg pottþétt halda áfram þessu sykurlausa mataræði en ég hugsa að ég muni leyfa mér brúnaðar kartöflur á jólunum og mögulega gos annan hvern mánuð. Sjáum svo hvernig það þróast.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður