Það er alltaf svo mikið um að vera á menningarnótt og mig langar að sjá svo margt… Öll þessi sniðugu heimboð, viss hljómsveit sem ég hef ekki séð áður spilar þarna klukkan þetta, svo er það myndlistin hér og svo þar, sviðslistin sem ekki má missa af en ohh, þetta sem er svo sniðugt fyrir börnin o.s.frv., o.s.frv.
Auðvitað missir maður af meira en helmingnum af því sem maður vildi sjá. M.a. vegna mannfjöldans getur verið erfitt að komast á milli staða, þannig er það bara og ég er ekki að fara að nöldra yfir því.
Það hlýtur að vera yndislegt að upplifa þessa hátíð sem barn og unglingur… Ég veit bara að þegar ég var ung var 17.júní hámenningarlegasta hátíðin yfir sumarið. Þá er menningarnótt fyrirbæri sem skilur eitthvað miklu meira eftir sig hjá börnunum. Ég vil engu breyta um menningarnótt, ég vil alltaf hafa menningarnótt og ég elska menningarnótt… Það á að vera á hreinu, ég vil bara vera sniðugari. Ég gæti t.d. tekið upp á því að rúlla á milli viðburða á hjólaskautum einhverjar leynileiðir (eða ekki) !
En í ár standa uppi í minningunni vonbrigðin. Ekki vonbrigðin að hafa misst af einhverju, heldur yfir hápunkti kvöldsins: “Ljósin kveikt á Hörpunni vonbrigðin.”
Ég var mætt með dóttur mína snemma upp á Arnarhól. Við vorum vel klæddar, á góðum stað og með teppi. Það var gaman að hlusta á Mugison spila, hann er náttúrulega frábær tónlistarmaður. Svo kom Bubbi á svið og það var gaman að hlusta á hann líka. Þó þegar hann spilaði síðasta lagið sitt var mann farið að lengja töluvert eftir hápunkti kvöldsins: Að kveikt yrði á listaverki Ólafs Elíassonar í Hörpunni.
Bubbi var í svaka stuði og bað fólk að taka undir með sér; “Jei, jei, jei, jeeeEi” og “Oó, ó, oooÓ” … Jú, jú voða gaman svo sem, en allir í brekkunni voru búnir að snúa sér til norðurs, í átt að Hörpunni, tilbúnir að berja augum listaverkið fræga. Ég setti stelpuna mína á háhest en hún er nú ekkert létt lengur get ég sagt ykkur.
Þá kom Diddú á svið og hóf að halda ræðu um hið mikilfenglega tónlistarhús Íslendinga. Ræðan var óviðeigandi löng. Allir hafa heyrt þessa ræðu áður, auk þess sem fólk var að skemmta sér og margir voru í glasi… Maður heyrði muldrað, “Já, já, einmitt” og “Blah, blah á ekki að fara að kveikja á þessu?”
Ræðan var svo sem falleg hjá henni en ofurháfleyg og svo loksins komu þessi orð, beint úr sjálfri Biblíunni
“Verði ljós!”
Smá stund leið og svo! Og svo? Hvað er þetta? Nokkrar neonljósaperur kviknuðu… Ekki í öllum gluggunum í Hörpunni, heldur hér og þar. Eins og biluð jólasería blikkuðu ljósin. Fagnaðarlætin létu á sér standa. Fólk stóð þögult. Og svo kom muldrið… Útundan mér heyrði ég; “Kannski var maður bara með of miklar væntingar?” og “Er þetta það sem við vorum að bíða eftir?”
Eftir vonbrigðin kom svo að flugeldasýningunni. Ég sem var búin að tryggja mér svo góðan stað með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn þurfti nú að snúa mér í hálfhring og sjá glitta í flugeldana á bakvið Sjávarútvegsráðuneytið. Þarna voru þeir þá og lýstu svona fallega upp himininn en staðsetningin? Ekki fannst mér tilkomumikil sjón að sjá flugelda á bakvið þetta hús.
Samt var þarna ein ný tegund af flugeldum sem ég hafði ekki séð áður. Það var nú gaman. Annars var ég fegin að komast heim til mín eftir þetta.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.