Par sem skýtur borðtenniskúlum upp í munna hvors annars, maður sem kastar vélsögum og gengur á gleri, nautsterk kona sem klórar sér í framan með tánum og fislétt ballerína sem stendur í lófunum á karli með móhíkana….
Í gær var Sirkúshátíð í Reykjavík formlega opnuð með pompi og prakt í Vatnsmýrinni í Reykjavík en það er Norræna húsið sem stendur fyrir hátíðinni.
Fjölmargar sýningar voru í sirkústjöldunum í gærkvöldi og fullt af fólki mætti bæði þangað og í Borgarleikhúsið þar sem Sirkús Cirkör fór með sýninguna Wear it Like a Crown á stóra sviðinu. Mætingin var góð en þar mátti meðal annars sjá bæði borgarstjórann og Frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta ásamt fullt af fleira fólki, meðal annars undirritaðri.
Wear it like a Crown er sýning sem enginn ættti að missa af enda ekki á hverjum degi sem okkur gefst tækifæri til að sjá þvílíka fagmenn leika listir sínar hér á landi. Sýningin er verulega skemmtileg en það sem heillaði mest var í raun samsetning tónlistar, búninga og svo atriðin sjálf. Þemað í Wear it like a Crown er að bera galla okkar og mistök, hræðslu og vankanta sem kórónu frekar en að vera í skömm yfir ófullkomleikanum og þetta túlka karakterar sýningarinnar sem hafa hver og einn sína stórkostlegu hæfileika.
Sérstaklega sló loftfimleikastelpan í gegn hjá mér en liðugri og sterkari konu hef ég aldrei berum augum litið. Þvílíkir hæfileikar!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=1nOVc-iCyM8[/youtube]
Næstu daga, eða til 14 júlí, gefst okkur svo tækifæri á að sjá fullt af flottum sýningum í Vatnsmýrinni og flestar þeirra, þó ekki allar, eru góðar fyrir krakkana líka. Pjattrófur skelltu sér á sýningar í gær og verður meira fjallað um þær hér á næstu dögum.
Hérna færðu MIÐA á sýningarnar. Við skorum heilshugar á þig og þína að skella ykkur í Sirkus. Þetta er svo öðruvísi og skemmtilegt og krakkarnir hafa hrikalega gaman af.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.