Íslenski Barinn opnaði aftur á dögunum á nýjum stað og með aðeins öðru yfirbragði en áður.
Þar sem ég var mjög hrifin af gamla Íslenska barnum sem var á Pósthússtræti ákvað ég að ég yrði að tékka á nýja staðnum sem er á Ingólfsstræti, í sama húsnæði og Næsti Bar var áður til húsa. Rýmið er núna gjörbreytt og staðurinn er innréttaður á mjög kósý og heimilislegan en samt sem áður nýstárlegan hátt.
Við vinkona mín þurftum auðvitað að kíkja á þennan nýja og spennandi stað þar sem gamli Íslenski Barinn var í alveg sérstöku uppáhaldi þegar hann var upp á sitt besta!
Við byrjuðum á því að fá okkur ein kælda bjórkollu af bjór hússins sem er góður lagerbjór í dekkri kantinum og með bjórnum pöntuðum við þrjá forrétti sem við urðum aldeilis ekki fyrir vonbrigðum með!
Forréttir í krukkum
Á Íslenska er hægt að velja um “hefðbundna” forrétti og krukkurétti.
Krukkurnar minna óneitanlega á sultugerðina í sveitinni og einhverra hluta vegna finnst manni þær vera alveg rammíslenskar og gefa því réttunum skemmtilegt yfirbragð sem er algjörlega í takt við stemmingu staðarins.
Í krukkunum tveimur var alveg meiriháttar góð síld en með henni var að sjálfsögðu rúgbrauð og í hinni krukkunni var hrefna. Við vorum alveg æðislega hrifnar af síldinni!
Skonsupizza með laxi
Við vorum alveg svakalega svangar og ákváðum að deila með okkur “pizzu” með reyktum laxi, jógúrt og loðnuhrognum. Botnin á pizzunni var að sjálfsögðu bragðgóð íslensk skonsa og þetta fór allt mjög vel saman.
Aðalréttirnir eru flestir með smá íslensku “twisti” sem gerir þá skemmtilegri og auðvitað betri. Við skelltum okkur á hrefnupiparsteik með bernaise sósu og flottustu frönskum sem við höfum séð (sem voru líka ótrúlega bragðgóðar) og kjúklingaborgari með piparostasósu í speltbrauði og með sæt-kartöflu frönskum.
Besti eftirréttur í heimi, og bjór með
Þegar kom að eftirréttunum vorum við svona hér um bil sprungnar en við gátum bara ekki staðist þessa tvo og skelltum okkur á skyrið og súkkulaðikökuna og þurftum auðvitað að fá okkur sumarölið frá Einstök með!
Við vorum sammála því að skyrið væri einn besti eftirréttur sem við hefðum smakkað og þó við stæðum á blístri hjálpuðumst við að við að éta það upp til agna! Mögulega einn besti eftirréttur í heimi!
Íslenski Barinn stendur svo sannarlega undir nafni, þar má finna íslenska hefðbundna rétti með skemmtilegum áherslum og ALLA íslensku bjórana sem eru á markaðnum ásamt fleiri skemmtilegheitum frá okkar ljúfa landi.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.