Í febrúar 2007 var Sólóklúbburinn stofnaður en hann er hugsaður sem vettvangur fyrir einhleypt fólk til að hitta aðra í sömu stöðu og skapa möguleika til að gera skemmtilega hluti saman.
Þetta getur vissulega verið flókið þegar flest gerir ráð fyrir því að fólk komi í pörum og oft sem einhleypir upplifa sig hálf útundan. En það þarf ekki endilega að vera svo… þú getur gengið í Sólóklúbbinn og lifað einhleypa lífstílinn til fulls með öðrum í sömu stöðu.
Skipulagning á viðburðum og samkomum félagsmanna fer öll fram á sólóvefsíðunni en þar geta allir meðlimir fylgst með því sem er í gangi, lagt sitt til málanna og spjallað saman.
Innan klúbbsins starfa fjórar nefndir sem taka að sér hverskonar skipulag en þær eru kaffihúsanefnd, útivistar, skemmti og siðanefnd.
Kaffihúsanefnd annast hinn reglulega kaffihúsahitting sólófélaga, sér um mótttöku á nýjum félagsmönnum og innskráningu þeirra í félagið. Öllum félagsmönnum er gert að skrá sig undir fullu nafni á vefsvæðinu og vera með skýra mynd af sér þar. Til að eiga þess kost að ganga í félagið verða áhugasamir að skrá sig á vefinn og koma á kaffihúsafund, eiga þar viðtal við nefndina og fylla út eyðublað, svo opna megi aðgang fyrir viðkomandi á sólóvefnum.
Útivistanefnd sér um skipulagningu á gönguferðum sem geta verið frá klukkutíma göngu innan bæjar með viðkomu í sundlaugum borgarinnar allt til erfiðra fjallgangna. Farið er í útilegur flest sumur, auk sumarbústaðaferða. Auk þess hefur verið farið í stóðréttir, Þórsmerkurferðir, ferð til Vestmannaeyja, ísklifur í Sólheimajökli, utanlandsferð til Spánar og svo mætti lengi telja.
Skemmtinefnd heldur uppi fjörinu. Nokkrar skemmtihátíðir eru orðnar fastur liður á ári hverju, má þar nefna árshátíðina, jólahlaðborðið, eurovisionpartýið o.fl. og síðast ber að nefna Siðanefnd en sú nefnd tekur á málum er varða hugsanleg frávik/brot á lögum eða siðareglum Sólóklúbbsins, sem gerist blessunarlega mjög sjaldan.
Þrátt fyrir þessa starfsemi nefnda þá er drifkrafturinn í félaginu einstaklingsframtakið. Hver og einn getur sett inn auglýsingu á innri vef félagsins um viðburð, t.d. bíóferð og þá koma þeir með sem hafa áhuga.
Þetta er mjög góð leið fyrir fólk að skapa eitthvað í kringum sín eigin áhugamál, þ.e. að vera með viðburði þeim tengt. T.d. má nefna bókaklúbbinn sem varð til vegna áhuga nokkurra félagsmanna. Þar eru lesnar heimsbókmenntir jafnt sem samtímabókmenntir.
Einstaklingsframtakið í félaginu er mikilvægt og út frá því hafa skapast margir skemmtilegir viðburðir þar sem fólk hefur jafnvel kynnst nýjum áhugamálum og gert hluti sem það hélt að það myndi aldrei gera. Má þar nefna leikhúsferðir, matarboð, kaffihúsaferðir, ugluskoðun, göngur, skautaferðir, bíóferðir, hundagöngur, ferðalög, veggjaklifur, hjólaferðir og margt margt fleira.
Fólk á aldrinum 25-60 ára getur gengið í félagið. Ef þú hefur áhuga skaltu kíkja á síðuna þeirra Sólóklúbburinn.is og á Facebook og kynna þér málið betur. Maður er manns gaman, svo einfalt er það nú.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.