Við höfum allar rifist við mennina okkar. Við höfum jafnvel hegðað okkur eins og þriggja ára smákrakkar í æðiskasti yfir að mega ekki borða tyggjó af gólfinu í Kringlunni, eða eitthvað þaðan af verra…
…en við höfum hinsvegar aldrei séð þessi reiðköst birtast á Youtube.
Það gildir þó ekki fyrir þessa vesalings þrítugu konu hérna sem reifst við manninn sinn vegna þess að hann vildi ekki standa við plön og fara með hana í smá frí að vatninu. Meðan hún tapaði sér yfir þessu (auðvitað var samt eitthvað annað undirliggjandi) tók hann allt upp og setti svo á Youtube. Vandaði sig auðvitað að vera mjög yfirvegaður sjálfur meðan konugreyið snappaði eins og það er kallað á vandaðri íslensku.
Svikin í þessu eru óumdeilanleg. Hjónabandið á að vera griðarstaður þar sem fólk nýtur trúnaðar og trausts. Að birta kastið hjá konugreyinu á Youtube er sérdeilis ósmekklegt af manninum – já svo leiðinlegt satt best að segja að hún dreif sig í að skilja við hann í kjölfarið.
Hingað og þangað á netinu er þó vitnað í manninn sem segist hafa fengið nálgunarbann á hana ásamt því að klaga upp á hana áfengisvandamáli. Annarsstaðar er talað um að henni hafi tekist að fá myndbandið fjarlægt af Youtube og að hann sé augljóslega með grimmar takkaýtingar á hana. Þetta fer allt eftir því hvort þú lest vefmiðla sem stíla inn á karl, eða kvenkynslesendur. Við höldum jú með okkar fólki 😉
Ef þig langar að sjá þetta stórkostlega furðulega myndband máttu smella HÉR hjá Gawker. Hér má svo lesa hennar skýringar á kastinu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.