Allir sem lesa íslensku, nota netið og hafa áhuga á líkamsrækt vita hver Ragnhildur Þórðardóttir eða Ragga Nagli er.
Við fengum hana til að svara okkar laufléttu heilsuspurningum enda flestir með tærnar þar sem Ragga hefur hælana í þessum málum.
1. Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Heilsa fyrir mér snýst um jafnvægi.
Jafnvægi milli þess að hreyfa mig mikið, og hugsa vel um hvað og hversu mikið ég læt ofan í mig 90-95% tímans, en leyfa mér síðan gúmmulaði af og til með góðri samvisku. Heilsa verður að vera lífsstíll, en ekki átak með síðasta söludag.
2. Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Ég hreyfi mig 5-7 sinnum í viku alla jafna, með að lyfta lóðum, gera metabólískar æfingar og spretti.
Í augnablikinu er ég nær eingöngu í þungum ólympískum lyftingum fimm sinnum í viku: hnébeygjur, bekkpressa, réttstöðulyfta og fleira í þeim dúr.
3. Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Ég sleppi eiginlega engu, er alltof mikill nautnaseggur og átvagl og yrði of óhamingjusöm að vera sneydd einhverju og finna til vanþurftar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé pláss fyrir allt í heilsusamlegum lífsstíl. Boð og bönn og merkimiðar um “góðan” og “slæman” mat býr til neikvætt samband við mataræðið, og getur aldrei orðið lífsstíll.
Ég flétta allskonar gómsæti inn í planið mitt, til dæmis með að taka það eftir æfingu, eða í skipulögðum frjálsum máltíðum. Eins er ég mjög dugleg að búa til hollar útgáfur af allskyns góðgæti og halda þannig átvaglinu í mér til friðs.
4. Hvað færðu þér í morgunmat?
Bakaðan hafragraut með ávöxtum, og stífþeyttar frystar eggjahvítur með Stevia dropum sem ég læt bráðna ofan í. Ég rýk yfirleitt framúr rúminu því ég er svo spennt að troða þessum unaði í andlitið á mér.
5. En á milli mála?
Það er eins misjafnt og dagarnir eru margir. Ég reyni að borða eins fjölbreytt og ég get, því lífsstíll er ekki þurrelsi og svekkelsi. Ég er matargat og átsvín sem mæli hamingju í mat. Þess vegna ligg ég á netinu til að finna nýjar uppskriftir að hollu gómsæti.
Prótínflöff, eggjahvítuís, hollar ostakökur úr kotasælu, hollar súkkulaðikökur, hollar bollakökur og múffur er meðal þess sem rennur ofan í ginið á mér milli mála.
6. Geturðu gefið okkur eina góða og einfalda uppskrift að einhverju heilsusamlegu (má vera hvað sem er).
Frosin holl og horuð ostakaka
Botn:
2 msk möndlumjöl
2 msk Walden Farms pönnukökusíróp
1 tappi möndludropar
Blanda öllu saman þar til verður að þykkum massa. Fletja út með blautum puttum í botninn á litlu smelluformi. Setja í frysti í 10-15 mínútur og gera fyllinguna á meðan.
Fylling:
100g kotasæla
50g kvark eða skyr eða 0% grísk jógúrt
1 eggjahvíta
1-2 tsk Stevia sætuefni
1/4 tsk xanthan gum (má sleppa en gerir stífari köku)
Stevia vanilludropar (Now/Via/Sweet Leaf)
Hræra allt saman með töfrasprota þar til kotasælan er orðin flauelsmjúk eins og barnsrass.
Taka botninn úr frysti og hella fyllingunni yfir.
Frysta í 90-120 mínútur.
7. Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Þægindin skipta mig meira máli en að vera smart og ég spái mikið í efnum og sniðum á íþróttafötunum mínum. Til dæmis er ég með sérstakar brækur frá Better Bodies fyrir hnébeygjudaga.
Ef ég ætti alla peningana í heiminum myndi ég eingöngu klæðast Better Bodies fötum því þau eru sniðin sérstaklega fyrir okkur konur sem lyftum. Við erum öðruvísi í vextinum með breiðari læri og mjórra mitti en meðal Jónan.
En ég versla mikið af mínum íþróttafötum í H&M og íþróttalínan þeirra er alltaf að verða betri og betri.
8. Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Erin Stern er í miklu uppáhaldi enda flott, og svo fylgist ég með öllu sem Layne Norton sendir frá sér en sá maður er í dýrlingatölu þegar kemur að vitneskju um líkamann og vaxtarrækt.
9. Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Prótín og lyftingar alveg tvímælalaust. Danskurinn er mjög lífrænn og auðvelt að nálgast þær vörur hér í matvörubúðunum fyrir nánast sama verð, en ég verð að viðurkenna að ég pæli mjög lítið í hvort varan sé lífræn eða ekki.
10. Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Ég lifi mikið í núinu og akkúrat núna er fókusinn að byggja upp meiri vöðvamassa og verða sterkari. Svo auðvitað að halda áfram að njóta þess að vera til, alltaf með jákvæðar hugsanir og viðhorf, þá verður lífið svo auðvelt og skemmtilegt.
Smelltu HÉR til að fylgjast með Röggu á Facebook. Hún er hafsjór af fróðleik og þekkingu sem hún deilir með okkur hinum og hefur veitt ótal konum og körlum innblástur og elju í ræktinni. Áfram Ragga – við elskum þig!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.