Margir kannast við það að vera duglegir að æfa en ná ekki þeim árangri sem þeir vilja ná. Og stundum er það ástæðan fyrir því að fólk hættir í ræktinni. Við viljum finna og sjá árangurinn og það helst í gær!
Kannski eitthvað af þessum atriðum gætu hjálpað þér til þess að ná hámarksárangri í heilsuræktinni.
1. Fylgstu vel með í tímum hvernig þú ert að taka á
Það sem var erfitt í byrjun er orðið léttara eftir 4 vikur og þá er hægt að auka ákefðina með stærri hreyfingum eða þyngri lóðum. Hlustaðu á líkamann og þú finnur hvort þú hafir getað gert betur. Að fara út fyrir þægindarammann er líka nauðsynlegt.
2. Þú ert að erfiða of mikið í byrjun
Of mikið af því góða er heldur ekki gott. Það er mikilvægt að líða vel eftir tímann og leyfa líkamanum að aðlagast þjálfuninni stigvaxandi.
Þessi gullni meðalvegur getur stundum verið erfiður. Ofþjálfun strax í byrjun kallar á meiðsl og það er mikil hætta á að hellast fljótt úr lestinni. Mikilvægt er að hlusta vel á líkamann.
3. Mataræði er jafn mikilvægur þáttur og þjálfun
Það er frábært að hreyfa sig en ef þú borðar of mikið þá þyngist maður svo einfalt er það. Hitaeiningar inn þurfa að vera í samræmi við hreyfinguna okkar. Skoðaðu vel hvað þú ert að borða og þú vilt ekki velja skyndilausn sem hjálpar þér í skamman tíma. Veldu þér lífstíl sem þú getur verið á alla ævi.
4. Lyftu
Þolþjálfun eins og hlaup er frábær aðferð til að brenna hitaeinnigum og styrkja hjarta- og æðakerfið.
En þú þarft líka að styrkja vöðvana með styrktaræfingum sem ná til alls líkamans.
Lyftu lóðum og gerðu styrktaræfingar fyrir allan líkamann og þannig eykur þú vöðvamassann sem gerir líkama þinn að góðri brennsluvél.
5. EKKI verðlauna þig með bragðarref
…eða auka skammt af matnum bara af því þú ert búin að vera svo dugleg/ur að æfa. Það er í lagi að leyfa sér einstaka sinnum en ef það gerist of oft þá vitum við hvað gerist.
6. VATNIÐ er mikilvægt
…og rannsóknir sýna að ef þú drekkur vatn fyrir hverja máltíð þá borðar þú yfirleitt minna.
Vatn er okkur gríðarlega mikilvægt og við getum hugsað okkur hvað við hreinsum likamann vel með vatninu í stað þess að fá sér gos!!
Drekktu vatn með matnum og þú sparar margar hitaeiningar á því!
7. Svefninn er gríðarlega mikilvægur
…og þrátt fyrir að það sé gott að æfa snemma á morgnana þá verðum við að vera búin að fá nægilega hvíld. 7-8 tíma svefn er það sem við þurfum því líkaminn þarf sinn tíma til að endurnæra sig.
Oft er talað um að árangurinn gerist í hvíldinni. Og hvað erum við svo sem að gera svona merkilegt eftir kl. 22:00 á kvöldin ??
8. Hvernig vinnu stundar þú?
Ef þú nærð ekki að hreyfa þig mikið í vinnunni, reyndu þá eins og þú getur að ná inn hreyfingu hér og þar.
Taktu stigana í stað lyftu, leggðu bílnum í betra stæði og gakktu lengra, stattu líka við vinnu þína þegar þú getur, það er miklu meira hlustað á fólk sem stendur en situr.
En mundu að sama hvaða hreyfingu þú gerir þá ertu alltaf að gera eitthvað gott fyrir þig.
Við þurfum bara stundum að gera aðeins betur og yfirleitt er það mataræðið og hvíldin sem vantar þar upp á
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.