Reykjavik
06 Dec, Thursday
6° C
TOP

Rabarbaramúffur með engiferi

Hvernig væri að útbúa rabarbaramúffur með engiferi á þessum fallega sumardegi?

Nú teygir glæsilegur og girnilegur rabarbari sig til himins í görðum landsmanna.

Víða er hann orðinn hár og vel þroskaður og þá er ekkert annað að gera en að nýta hann til matargerðar eða í bakstur.

Fyrir mér er fyrsta rabarbarauppskeran kærkominn sumarboði og eftirvænting ríkir jafnan á meðal ungviðisins þegar til stendur að rífa hann upp enda rabarbarinn eitt það fyrsta sem nýtist á sumri hverju úr náttúrunni.

Hér er uppskrift að sumarmúffum sem gaman er að bera á borð úti í garði eða taka með sér í lautar- eða gönguferðina í blíðviðrinu.  12.stk.

  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 dl sykur
  • örlítið salt
  • 1-2 tsk. engifer, malað (eftir smekk)
  • 2 egg
  • 3 msk. hrein jógúrt
  • 1 dl olía, t.d. grænmetisolía, eða brætt smjör
  • 1 ½ dl rabarbari, smátt skorinn
  • 1 tsk. kanilduft

Blandið hveiti, lyftidufti, sykri, salti og engiferi saman. Hrærið vel saman í annarri skál eggjum, jógúrti og olíu. Blandið síðan saman við þurrefnin. Kanil er blandað saman við smátt saxaðan rabarabarann og ríflega helmingnum af honum er bætt út í deigið.  Skiptið síðan deiginu í 12 múffuform og setjið afganginn af rabarbaranum ofan á. Bakið í 20 mínútur við 200 gráður. Látið múffurnar kólna áður en bornar fram.

NJÓTIÐ!

Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.