Elskar þú ítalskan mat? Einmitt… hver gerir það ekki?!
Ég geri það, svo mikið er víst. Pizzur, pasta, ólífur, mozarella, basil, hvítlaukur, tómatar, parmesan, hráskinka og svo mætti lengi, lengi telja… Ítalskur matur er með því besta sem menning þessarar blóðheitu þjóðar hefur gefið af sér (Berlusconi er amk ekki á listanum).
Það var því fagnaðarefni fyrir undirritaða þegar nýr ítalskur veitingataður opnaði miðsvæðis í Reykjavík, nánar tiltekið við Grensásveg. Staðurinn heitir Primo Ristorante og þar er boðið upp á allskonar kræsingar frá Ítalíu, allt frá pizzum og pastaréttum yfir í klassíska ítalska rétti úr eðalhráefnum sem sótt eru hér til nærliggjandi sveita.
Þó staðurinn sé nýlega opnaður var nóg að gera þegar ég prófaði nú í vikunni. Fór í góðra vina hóp og pantaði mér pizzu en aðrir fengu sér meira framandi rétti (ég var bara í pizzuskapi). Meðal þess sem borið var á borð hjá okkur var bruchetta með parmaskinku og geitaosti, nautasteik, andalifur í heimagerðu pasta og svo auðvitað pizzurnar góðu. Með þessu var drukkið hið eðalfína Piccini frá Ítalíu því hvað er ítalskur matur án þess að maður fái sér gott glas af rauðu með?
Það er yfirhönnuðurinn Leifur Welding sem hannar innréttingar staðarins (Sushisamba, Sjávargrillið, Lifandi Markaður etc) en þar er bæði hátt til lofts og vítt til veggja. Þjónustan var ljómandi góð og ekkert út á hana að setja en það getur oft verið svolítið vandamál hér á landi og því gaman þegar allt gengur snuðrulaust fyrir sig.
Lýsingin á Primo er björt og þægileg og tilvalið fyrir fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum að koma á Primo að borða.
Næg bílastæði eru fyrir utan og verðið á matseðlinum er breytilegt en sérstaklega finnst mér hádegistilboðin spennandi þar sem hægt er að panta flotta rétti á í kringum 1700 kr.
Við vorum öll mjög sátt við þennan nýja ítalska stað og sammála um að við myndum koma aftur.
Smelltu hér til að skoða Facebook síðu Primo og HÉR til að skoða heimasíðuna og matseðilinn.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.