Ég man þá tíð þegar afgreiðslufólk í Hagkaup setti vörur í poka fyrir viðskiptavini.
Þetta var áður en svokallaðar lágvöruverslanir komu til sögunnar. Partur af því sem átti að lækka vöruverðið í búðunum var lægra þjónustustig, meðal annars þetta að þú áttir sjálf að raða í pokann þinn eftir kúnstarinnar reglum.
Svo einhvernveginn lagðist þetta bara alveg af á Íslandi. Verslanir sem eru með mikið hærra vöruverð hættu líka að veita þessa góðu þjónustu og allir eiga að setja sjálfir í sína poka með tilheyrandi stressi. Líka á jólunum en Hagkaup var einmitt oft með “pokadýr” á jólunum á þeim tíma sem siðurinn var að lognast útaf aðra daga ársins.
Persónulega finnst mér það að koma á kassann með því mest stressandi sem ég geri í hversdagslífinu. Ég fer um búðina og týni vörur í körfuna, svo kemur maður á kassann og mokar þessu upp. Með miklu hraði spænir afgreiðslumanneskjan vörunum eftir færibandinu og spyr svo hvað maður vilji marga poka! Þessu er auðvitað ómögulega hægt að svara almenninlega þegar maður er rétt byrjaður að raða… en hvað um það.
Ég reyni yfirleitt að vanda mig að raða svo að vörurnar skemmist ekki eða brotni, nú hvað þá ef pokinn gefur eftir. Þyngdin þarf líka að skiptast nokkuð jafnt svo að fingurnir detti ekki af manni á leiðinni í bílinn.
Og þegar ég er svona rétt að byrja að raða í pokann nefnir hún upphæðina sem ég á að greiða og ég gramsa eftir kortinu í töskunni, rétti henni það og held áfram að raða þar til hún biður mig um PIN. Þá geri ég hlé. Slæ það inn. Geng frá kvittun og held áfram að raða en hún er auðvitað byrjuð á næsta kúnna og vörurnar hans eða hennar hrúgast yfir innkaupin hjá mér og maður er þarna eitthvað að paufast með aðra stressaða og pirraða týpu fyrir aftan sig.
Þetta þarf ekki að vera svona
Víðast hvar erlendis, eða svona í þessum vestræna heimi okkar, er þessu ekki svona háttað. Ekki þar sem ég hef keypt inn í hinum svokölluðu Betri verslunum.
Í flestum matvöruverslunum hjálpar afgreiðslufólkið til við að raða í pokana og bæði betri og ódýrari verslanir eru með einskonar pokaglennu á kassanum þannig að afgreiðslufólkið setur beint í pokann eftir að það er búið að renna vörunni í skannann. Í allra bestu búðum, eins og t.d. Trader Joe’s og Whole Foods, eru það svo sérlegir aðstoðarmenn sem raða í pokana. Oft vinalegir eldri menn sem spjalla líka um daginn og veginn í leiðinni. Vöruúrvalið og þjónustan gerir það einfaldlega að mjög skemmtilegri reynslu að kaupa í matinn og vinalegt viðmótið getur hreinlega bjargað deginum!
Okkar ‘þjónustuglaða’ samfélag
Hér í okkar ‘þjónustuglaða’ samfélagi er annað uppi á teningnum. Ég hef meira að segja lent í því að þurfa að snúa frá kassanum til að sækja eitthvað sem hafði gleymst, koma hlaupandi með andateppu til baka og hitta fyrir svipbrigðalaust afgreiðslu-ungmennið, enn með vörur og tóman plastpoka beint fyrir framan sig en kannski fólk bíðandi í röðinni. Ég steinhissa spurði hvernig á því stæði að hann byrjaði ekki á að skella þessu í pokann meðan ég var að hendast um búðina og svarið var: “Ég fæ ekki borgað fyrir það”.
Herregud!
Já, það getur verið flókið að vera kona í tilvistarkreppu með fyrsta heims vandamál en að öllu gríni slepptu þá skora ég á verslunareigendur að fjárfesta í þessum dýrðlegu pokaglennum eða velta því alvarlega fyrir sér hvort það muni skapa allt of mikið vinnuálag á kassafólkið að hjálpa jafnvel stundum til við að setja í pokana. Það myndi gera líf okkar allra (og sér í lagi eldri borgara) svo miklu bærilegra. Því ég er sannarlega ekki ein um þetta.
Eða hvað?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.