Sjómannadagshelgina opnaði nýtt kaffihús á Suðureyri við Súgandafjörð undir nafninu Kaupfélag Súgfirðinga og þar er ýmislegt á boðstólnum eins og góðu Kaupfélagi sæmir.
Sem dæmi má nefna heimagerðar sultur á krukkum, listaverk úr hári, lego kubba, fatnað frá 66°N, Royal búðing með rjóma, sushi og svo mætti lengi telja en það sem rýkur helst þar út eru plokkfisksamlokurnar þeirra og auðvitað sushi!
Trilla með plokkfisk, osti og bernaisesósu kemur skemmtilega á óvart og hefur margur lagt leið sína á Suðureyri til að smakka á þessari ágætu uppfinningu.
Aðspurður segir Ársæll Níelsson, sérlegur hugmyndasmiður plokkfisktrillunar, að honum hafi dottið þetta í hug í leit sinni að íslensku sjávarþorps-útgáfunni af hamborgara. En ekki hvað?!
Í Kaupfélaginu er líka margt að sjá sem ekki er til sölu, til dæmis er hægt að fletta upp í gömlum Súgfirskum veðurbókum frá árunum 1961 til 1989 og heilmörgum árgöngum National Geographic en þar er elsta blaðið frá desember 1944.
Þó hönnunin taki mið af tímabilinu 1960 til 1975, þá ríkir þar ekkert bjórbann og hægt að fá sér einn kaldan af krana og nýta þann nútíma munað sem þráðlaust internet er.
Við hvetjum alla ferðamenn til að kíkja í mat á Kaupfélaginu enda eru ekki margir staðir á landinu þar sem hægt er að panta sér slíkt góðgæti.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.