Fyrir tæpum þremur mánuðum byrjuðum við Vala í átaki hjá Hrafnhildi Halldórsdóttur einkaþjálfara hjá Hreyfingu. Daginn áður en ég átti að mæta í einkaþjálfun fór ég í fataherbergið mitt og tók fram gallabuxur sem ég keypti rétt áður en ég varð ólétt, vongóð um að komast í þær. En svo var nú ekki. Þarna stóð ég fyrir framan spegilinn og byrjaði að draga þær upp en það var sama hvað ég reyndi að toga, ég náði þeim ekki upp fyrir hné! Þvílíkt sjokk!
Þarna stóð ég með buxurnar fastar við hné og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að líkaminn sem blasti við mér var umtalsvert sverari en sá sem ég hélt að væri þarna – ég kannaðist ekki við þennan líkama. Þetta var hvorki minn rass né mín læri og gallabuxurnar hreinlega komust ekki hærra! Úff, það lá við að ég kastaði mér á ísskápinn. Já, það er annaðhvort að borða á sig gat, leggjast í þunglyndi og grenja í koddann eða versla sér nýjar gallabuxur í stórum stelpum.
Ég ákvað að sleppa því að detta í átið eða eyða peningum í stærri fatnað og gera þess í stað eitthvað í mínum málum. Það er hreinlega ekki nóg að ímynda sér að kílóin hrynji bara í burtu. Ég ákvað því að skora á sjálfa mig og gera þetta að minni vinnu í fæðingarorlofinu – koma mér í form.
Ég er búin að mæta í Hreyfingu reglulega. Fór tvisvar í viku í einkaþjálfun en aðra daga hef ég valið mér hóptíma sem eru þrususkemmtilegir.
Ef ég fer ekki í ræktina þá reyni ég að hreyfa mig; hendist út með litla guttann minn í hressilegar gönguferðir með vinkonum sem eru í fæðingarleyfi. Það er samt ekki nóg að hreyfa sig. Ég hef breytt hugarfari mínu og ég hugsa mig tvisvar um hvað ég borða. Það er því ekkert sjoppufæði í boði á mínu heimili.
Þremur vikum eftir að hafa breytt hugsunarhættinum, skellt mér í ræktina og hugað að mataræðinu, dró ég fram sömu gallabuxurnar og ákvað að gera aðra tilraun til að troða mér í þær aftur, svona til að athuga hvort þær myndu stoppa á sama stað og áður og með kvíðahnút í maganum renndi ég þeim upp kálfana og stelpur… á þrem vikum tókst mér að minnka ummálið það mikið að ég komst í gallabuxurnar!!
Jújú… upp fóru þær upp fyrir hné, og læri og ég gat hneppt þeim! Hallelúja, ég þarf reyndar að taka meira af því það er enn hliðarspik og magi sem ég vil styrkja en samt… OMG.. ég komst í gallabuxurnar mínar!
Ég skellti mér glöð í hæla (fór ekki í hæla alla meðgönguna) og með bros á vör sveif ég út úr dyrunum og á hamingjuskýi fór ég beint í ræktina og verðlaunaði mig svo með klippingu -fór í gallabuxunum!
Hún Hrafnhildur er hörku einkaþjálfari sem hélt okkur algerlega við efnið, þannig að okkur hefur hlakkað til að mæta og æfa.
Hvað einkaþjálfun varðar þá er það ein ein besta, þægilegasta og fljótasta leiðin til að komast í betra form. Tvær geta verið saman hjá einkaþjálfara og borgað sirka 20 þúsund á mann á fyrir mánuðinn. Eins er hægt að vera í hópum c.a. 3-6 saman og þá er borgað aðeins minna á mann.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.