Eins og glöggir lesendur Pjattrófanna vita þá eignuðumst við Díana börn fyrr á árinu og eins og oft vill verða sitjum við eftir með vömb og fleira sem við viljum fyrir alla muni losna við.
Við ákváðum að fara í átak saman og fengum tíma hjá einkaþjálfara og þriggja mánaða kort í Hreyfingu.
Við mættum soldið hræddar í fyrsta tíma til hennar Hrafnhildar Halldórsdóttur einkaþjálfara sem frá fyrstu stundu var svo fín og indæl að hræðslan hvarf og við vorum farnar að hlægja og gera grín á meðan hún mældi okkur í bak og fyrir, reiknaði út fituprósentuna ofl.
Í þessum fyrsta tíma settum við okkur markmið, Hrafnhildur kynnti fyrir okkur matarprógramm og bað okkur að halda matardagbók. Markmið okkar Díönu er aðallega að komast í gömlu gallabuxurnar og gott form en til þess þarf ég að grennast um c.a. 8% fitu, 5-10 cm í ummál (eftir stöðum) og styrkja alla vöðva með áherslu á kvið, bak og bossa.
Fyrsti tíminn var síðasta fimmtudag og ég byrjaði strax á matardagbók sem er aðhald út af fyrir sig. Það er að segja að þegar maður þarf að skrá ALLT niður sem maður borðar þá hugsar maður sig tvisvar um áður en maður lætur óhollustu eftir sér, því einkaþjálfarinn fær matardagbókina vikulega og skammar mann fyrir vitleysuna!
Fyrsti tími af æfingum var svo í gær og verður héðan af hjá Hrafnhildi tvisvar í viku í mánuð. Hún var góð við okkur í dag enda vorum við lafmóðar eftir 5 mínútna upphitun. Svo kenndi Hrafnhildur okkur æðislegar kvið- rass- og mjaðmaæfingar með bolta sem tekur álagið af bakinu og eftir það fórum við í tækin.
Það var augljóst að það var langt síðan við höfðum farið í ræktina og eftir klukkutíma æfingu vorum við kófsveittar en ánægðar mæður sem flýttu sér í sturtu til að ná í litlu krílin í barnapössunina.
Ég get hiklaust mælt með barnapössuninni þarna í Hreyfingu. Við erum með fimm mánaða stráka og þær eru mjög vanar og áreiðanlegar fóstrurnar og það gekk allt vel sem er mjög hughreystandi og hvetjandi fyrir okkur á meðan á æfingum stendur.
Fyrsta vika í átaki hefur verið skemmtileg og hvetjandi og ég hlakka til að halda áfram, sjá árangur og deila honum með lesendum. Ég ætla líka að deila með ykkur æðsislegu boosti sem ég fékk mér í morgun, það er varla til betri byrjun á morgni en með þessu:
Bláberjaboost:
1/2 bolli bláber (íslensk nýtínd, gott að frysta í litlum skömmtum til að eiga í boostið)
1 banani
1 skeið prótínduft
1 dós lífrænt skyr frá Bíóbú
(mér finnst þetta nógu sætt og bætti engu sætuefni í en það “má” setja skvettu af Agave sýropi ef maður vill sæta)
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.