Ekkert er nýtt undir sólinni og líklega á þetta jafn vel við í Frakklandi og hvar annarsstaðar.
Það nýjasta eru fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna… og reyndar karla líka. Já, nú er víst um að gera að láta flíkka upp á kynfærin! Það er ekki nóg að láta eiga við andlitið; nefið, varirnar, brjóstin, magann og lærin heldur verður það sem öllum er hulið að lúkka vel líka!
Tvær vinsælustu fegrunaraðgerðir kvenna í Frakklandi eru gerðar á innri börmum og leggöngum. Aðgerðin á innri börmum felur í sér að dálítill hluti varanna er minnkaður eftir óskum konunnar þannig að ekkert lafi nú útfyrir. Leikurinn er gerður til að auka á unað í kynlífi og til að fegra ásýndina.
Önnur vinsælasta aðgerðin er leggangaþrenging. Eftir barnsburð og siglingar í lífsins ólgusjó víkka leggöngin og tilfinningin við samfarir mun ekki vera eins sterk og þegar leggöngin voru þrengri.
Þannig er nú það… En svo má líka spyrja að því hvort um eiginlega “lýtaðgerð” sé að ræða þegar hið svokallaða lýti er flestum hulið í hinu daglega lífi?
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.