Núna nýverið var frumsýnd myndin Pitch Perfect hér á Íslandi en myndin hafði slegið í gegn í Bandaríkjunum og ég var lengi búin að bíða eftir að hún yrði frumsýnd hér á landi.
Um daginn skellti ég mér svo í Laugarásbíó og varð ekki fyrir vonbrigðum með þessa snilld!
Ég hafði verið svolítið hrædd um að myndin yrði einum of mikið í anda Glee þar sem lögin virðast í mörgum tilvikum vera það skemmtilegasta við þættina og í mörgum tilvikum eru þau ekki einu sinni það spes (fyrirgefið mér Glee aðdáendur).
En Pitch Perfect er fyndin og skemmtileg og söngurinn er ekki of yfirþyrmandi og í flestum ef ekki öllum tilvikum er hann meira að segja bara skemmtilegur, einu sinni var ég meira að segja næstum búin að klappa þegar lag kláraðist en áttaði mig sem betur fer á því að ég var í bíó áður en ég lét verða að því!
Myndin fjallar um Becu sem er að byrja fyrsta árið sitt í háskóla, gegn sínum vilja en hún vill flytja til L.A. og vinna sem tónlistarframleiðandi. Í gegnum röð tilviljana og vegna þess að pabbi hennar gefur henni úrslitakost ákveður Beca að ganga til liðs við The Barden Bellas sem er sönghópur sem keppir í söngi án hljóðfæra. Myndin hljómar eins og týpísk “stelpumynd” en er það engan vegin, hún er fyndin og frumleg og þó hún sé “léttmeti” þá er þetta pottþétt mynd sem ég á eftir að horfa á aftur (og aftur og aftur) í framtíðinni.
Það er alltaf gaman að sjá mynd þar sem stelpur eru í aðalhlutverki og sérstaklega þegar það er ekki bara einblínt á eina “gerð” af stelpum. Sú sem skarar þó klárlega fram úr og stelur senunni nær algjörlega er Rebel Wilson en flestir kannast við hana sem kvenkyns meðleigjanda Annie úr Bridesmaids. Rebel er algjör grínsnillingur og það virðist vera að hún geti gert hvað sem er alveg fáranlega fyndið.
Ég mæli með Pitcch Perfect fyrir hvern sem er sem kann að meta gott léttmeti sem fær mann til að hlæja!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=siEHekc-1oE[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.