Ömmur og afar geta verið yndisleg. Ég hef því miður misst ömmur mínar og afa bæði í móður og föðurlegg en synir mínir eru svo einstaklega heppnir að þeir eiga allar sínar ömmur og afa á lífi og gott betur en það því að þeir eiga einnig langömmur.
Minningarnar eru það sem að ég held í frá ömmum mínum og öfum. Stundirnar sem við áttum saman þegar ég var lítil, heimsóknir, ferðalög og myndirnar. Það er yndislegt að skoða gamlar myndir og rifja upp gamla tíma með ömmu og afa.
Það er dásamlegt að sjá svipinn á drengjunum mínum þegar að amma og afi koma í heimsókn. Þeir hlaupa beint í fangið á þeim og gefa þeim risaknús og vilja síðan helst ekki að þau fari og þegar þau ætla að fara heim til sín er oftar en ekki er spurt mann “má ég fara í heimsókn til ömmu og afa”, hvernig er hægt að neita þessum hvolpaaugum þegar maður er beðinn fallega og að sjálfsögðu eru dyrnar alltaf opnar hjá ömmu og afa gaman að koma í heimsókn til þeirra.
Ég sakna ömmu minnar og afa alveg gríðarlega mikið og hefði viljað hafa þau lengur hjá mér því hika ég ekki við það að vera dugleg að kíkja í heimsókn til foreldra minna eða tengdaforeldra með syni mína til þess að styrkja böndin á milli þeirra.
Við bjuggum í tvö ár úti á landi burt frá allri fjölskyldunni og núna kann ég að meta það betur að fara í heimsókn til þeirra, þó að það sé ekki nema í korter (það þarf ekkert að stoppa allan daginn).
Munið að það eru minningarnar sem lifa og því er nauðsynlegt að skapa fallegar minningar sem við munum eftir um ókomna tíð því að mínu mati eru ömmur og afar englar í dulargervi…
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig