Á knúz-inu um daginn birtist umfjöllun um myndaröðina Freier sem ljósmyndarinn og kvikmyndagerðakonan Bettina Flitner birti í tímaritinu Stern í ár.
Orðið Freier er í Þýskalandi notað yfir hvern þann sem kaupir sér vændi en vændi hefur verið löglegt þar í landi síðan árið 2002. Myndirnar í seríunni Freier eru af karlmönnum sem kaupa sér vændi en myndirnar eru teknar af þeim á rúmstokkum vændiskvenna og með þeim birtast svör við spurningu Bettinu af hverju þeir væru staddir á vændishúsi.
Svörin frá kaupendunum eru nokkurn vegin eins og hægt er að búast við: Blanda af réttlætingum og valdafíkn.
Þegar lesið er yfir svörin, og virkilega kafað í þau, reiðist ég yfir því að virkilega sé til fólk sem telur sínar langanir tróna yfir öllu siðferði, fólk sem trúir því að þessar stelpur (og stundum strákar) njóti raunverulega kynlífs með kúnnunum sínum og að það séu til einstaklingar sem halda að hin hamingjusama hóra sé það mikið algengara fyrirbæri en hin óhamingjusama og misnotaða hóra, – að það réttlæti tilvist vændisstarfseminnar.
Joachim er 58 ára verkfræðingur sem á eina dóttur. Hann segir:
„Þegar maður fer inn á svona klúbb, geta venjulegar konur ekki lengur fullnægt manni. Þessir kroppar! Dóttir mín er 26 ára svo ég passa alltaf að konurnar sem ég er með séu allavega 27 ára. Margar þeirra starfa undir melludólgum, það hef ég sjálfur séð.“
Það sem slær mig mest við þessa tilvitnun er það að þessi maður upplifir kynlíf greinilega aðeins sem líkamlegt og ekkert sem andlega tengingu.
Joachim sjálfur er samt ekkert sérstakt augnakonfekt sé dæmt eftir hefðbundnum stöðlum, hvað þá fyrir 27 ára gamlar konur. Sjálf er ég 27 ára, líkt og yngstu vændiskonurnar sem hann sættir sig við, og ég myndi líklega flokkast sem venjuleg kona.
Ég held ég geti sagt með nokkurri fullvissu fyrir hönd okkar venjulegu kvennana (og að ég held flestra annarra kvenna á mínum aldri) að það sem ég hef séð og heyrt til hans Joachims gerir það að verkum að við kærum okkur bara ekkert um kallinn.
Það að hann réttlæti gjörðir sínar með því að hann kaupi bara kynlíf af konum sem eru alveg heilu ári eldri en dóttir hans gerir gjörðir hans ekkert betri. Það sýnir það bara fram á að hann veit allt um að það sem hann er að gera er hvort í senn ósmekklegt og ógeðslegt og einstaklingarnir sem hann er að kaupa þjónustuna af eru að vinna við eitthvað sem hann myndi aldrei vilja að dóttir hans myndi starfa við.
Svo af hverju er honum alveg sama þó að dætur annarra starfi við það? Eru dætur annarra ómerkilegri en hans eigin? Hvað mun svo gerast þegar dóttir hans er orðin fertug og hann sjötugur? Það þarf ekki háa greindarvísitölu til að átta sig á að Joachim muni á endanum brjóta þessa réttlætingarreglu sína og reyna að finna eitthvað annað sem „fegrar“ þann viðbjóð sem hann stundar.
Christian er 23 ára gamall einhleypur verslunarmaður. Hann hafði þetta að segja um það af hverju hann væri staddur á vændishúsi:
„Af hverju ég borga fyrir kynlíf? Konur geta bara verið alveg svakalega erfiðar. Þess vegna freistar það manns að borga bara fyrir það. Það kostar 50 evrur aukalega að fá það framan í þær. Þetta er eiginlega spurning um vald. Maður getur gert hvað sem manni sýnist við konuna.“
Það er alveg rétt hjá Christian að konur geta verið alveg svakalega erfiðar. Þær geta rifist og skammast, þær geta grátið og þær geta verið alveg hundleiðinlegar og dramtískar.
En karlmenn geta líka verið alveg svakalega erfiðir og oftast nær er það á nákvæmlega sama hátt og konur geta verið erfiðar. Svo eru auðvitað undantekningartilvikin og ég vil trúa því að á meðal karlmanna sé Christian undantekningartilvik.
Ég vil trúa því að karlmönnum finnist meira æsandi að sofa hjá stelpu/konu sem þeir bera virðingu fyrir frekar en einhverri sem þeir hafa tímabundið “vald” yfir. Ég vil trúa því að karlmönnum finnist það “vesen” sem konur leggja á þá sanngjart vegna þess að þeir vita að þeir geta verið með alveg jafn mikið “vesen” og þær. Ég vil líka trúa því að ef kona segir nei þegar karlmaður biður um að fá að fá það framan í hana láti þar við sitja en fari ekki til næstu vændiskonu og borgi henni 50 evrur fyrir það bara af því það er svo auðvelt.
Ég vil trúa því að karlmönnum finnist raunverulegt samþykki meira æsandi en samþykki og umsamin undirgefni sem þeir hafa borgað fyrir með peningum.
Það sem mér fannst skína í gegn þegar ég las yfir tilvitnanirnar í þessa átta viðmælendur, og það sem ég hef fengið á tilfinninguna í öll þau skipti sem ég hef lesið um neytendur vændis, er að þessum einstaklingum finnst sem heimurinn skuldi þeim kynlíf. Að ef þá vantar kynlíf þá eigi bara einhver, einhversstaðar að vera tilbúinn til þess að veita þeim það. Þetta er gjörsamlega sjálfhverf og brengluð hugsun og það þarf engar sérstakar sálfræði eða mannfræðirannsóknir til að styðja það, heldur einfaldlega manngæsku og hæfileikann til að geta sett sig í spor annarra.
Ef þessir einstaklingar myndu virkilega hugsa sig um, þó ekki væri nema bara aðeins, – og virkilega setja sig í spor þeirra sem hafa það að atvinnu að selja hverjum sem er aðgang að líkama sínum, þá myndi ekki líða á löngu þar til þeir myndu átta sig á því að líkurnar á því að andlega heil manneskja hreinlega velji vændi fram yfir aðrar leiðir til tekjuöflunar eru mjög, mjög litlar.
Alveg á sama hátt og enginn heill einstaklingur myndi nokkurtíma hafa hjarta til að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju.
HÉR má lesa pistil minn um ferðalag til Amsterdam og upplifun af vændi.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.