Fyrir þá sem tóku eftir þessarri grein og eru virkilega að leita sér að ástæðum til þess að deita stelpu með átröskun, þá bið ég ykkur vinsamlegast um að lesa þessa grein til enda og leita ykkur svo hjálpar.
Ég las grein fyrir stuttu á karlavefnum Return of Kings sem hægt er að finna hér. Vefurinn er að mestu algjör viðbjóður og virðist að mestu til þess gerður að gera lítið úr konum og því meira úr karlmönnum. Sú grein sem ég las hins vegar um daginn ber heitið „5 reasons to date a girl with an Eating Disorder“ og nei hún er ekki skrifuð í kaldhæðni. Eðlilega vakti greinin mikla athygli og mikla reiði…en í mörgum tilvikum voru lesendur síðunnar mjög sáttir við greinina. Svar frá ritstjóra vefsins, sem finnst greinin fullkomlega réttlætanleg, má finna hér.
Fyrir þá sem ekki nenna að lesa greinina (sem ég skil vel þar sem hún er svo mikil þvæla frá byrjun til enda) þá telur greinin upp, líkt og fyrirsögnin segir til um, fimm „kosti“ sem fylgja því að vera í sambandi við stelpu með átröskun en þeir eru hverjum öðrum klikkaðri. Greinarhöfundur virðist engan vegin átta sig á því að átröskun er geðsjúkdómur sem hann sem „heilbrigði“ aðilinn í sambandinu ætti að leggja sig fram um að hjálpa stelpunni að læknast af (ég set heilbrigði hér í gæsalappir þar sem ég efast stórlega um geðheilbrigði þess sem skrifar svona grein og hefur skoðanir sem þessar).
Það er kannski orðið nokkuð augljóst að ég var í reiða hópnum sem las þessa grein.
Með því er ég alls ekki að segja að ekki eigi að deita stelpur með átröskun eins og ritstjóri vefsins virðist halda fram, heldur er ég einungis að segja að þessi grein er algjör vitleysa frá upphafi til enda.
Hún ýtir undir þá fáranlegu mynd sem margir karlmenn hafa af konum, þ.e. að allar konur þurfi að vera mjóar til að vera kynþokkafullar og hún ýtir undir lélega sjálfsmynd margra kvenna og stelpna sem trúa því að þær þurfi að vera mjóar til þess að vera kynþokkafullar.
Greinin gerir ekki aðeins það þar sem samkvæmt þessari grein er ekki nóg að vera bara mjór eða í formi til að ná sér í mann heldur eru stelpur varla „deitanlegar“ fyrr en þær eru komnar með átröskun! Greinarhöfundur endar greinina á þessum orðum: „Segið það sem þið viljið, stelpur með milda átröskun eða í meðallagi –sem hafa ekki spillt útliti sínu- eru bestu kaupin á sí-hnignandi deitmarkaði hins vestræna heims.“
Með þessari grein er ekki aðeins verið að gera lítið úr konum og geðsjúkdómum heldur er líka verið að gera lítið úr karlmönnum. Það er verið að setja alla karlmenn í sama flokk sem vilja fá það nákvæmlega sama frá konum. Og það sem karlmenn vilja samkvæmt þessari grein eru vel klæddar, óöruggar stelpur sem kosta ekki mikil fjárútlát…og já auðvitað þarf hún að vera alveg svakalega góð í rúminu líka „eitthvað sem allir vita að geðveikar stelpur eru“.
Við Pjattrófur hvetjum alla til að gera það sem þeir þurfa til að líða sem best í eigin skinni og til að lifa heilbrigðu lífi, því við erum fallegust þegar okkur líður vel!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.