“Jafnvel þótt litlu muni er samþykkt að konur séu ekki metnar til jafns á við karla, að þær séu aðeins minna virði en þeir.”
Svona skrifar Ingibjörg Dögg í leiðara sínum sem hún nefnir Karlar sem hata konur. Frábær pistill sem allir ættu að lesa.
Ég hef lengi velt þessu fyrir mér. Af hverju konur og það kvenlega er ekki metið til jafns við hið karlmannlega. Hvers vegna þykir heiminum ekki jafn fínt að vera kona og að vera karl?
“Kvenfyrirlitning” (gróft orð) birtist í ótal undarlegum myndum. Ein þeirra er að leggja fæð á margt það sem konum finnst heillandi. Það er einhvernvegin samþykkt að það sem er “kvenlegt” sé ekki jafn mikils virði og það sem er “karlmannlegt”. Þannig ættu bæði kyn að keppa að karlmennskunni en fara sparlega með það “kvenlega”.
Sonur vinkonu minnar er í skóla sem er rekin undir Hjallastefnunni. Um daginn kom upp einhverskonar umræða hjá strákunum um að bleiki liturinn væri asnalegur. Málið var tekið fyrir og það var unnið með bleika litinn í viku. Það var spekúlerað í öllu sem er bleikt og niðurstaðan varð sú að litlu drengirnir eru fullkomlega sáttir við bleikt. Einn heimtaði meira að segja bleikan reiðhjólahjálm. Vildi hann fremur en þann bláa. Ég hef alltaf sagt dóttur minni að það séu hvorki til stelpu né strákalitir. Bara litir.
Litlar stelpur þurfa að alast upp við að þeirra áhugamál og það sem þeim finnst spennandi sé ekki samþykkt af strákum. Í raun er það bara almennt samþykkt að það sé asnalegt að “hlaupa eins og stelpa”, “keyra eins og stelpa”, “grenja eins og stelpa” – jafnvel er það bara asnalegt að VERA stelpa. Þannig verður bleiki liturinn, sem er oft í miklu uppáhaldi hjá stelpum, asnalegur og margt fleira það sem einkennir stelpur og þeirra áhugamál eða svið.
Ég skrifaði fyrir löngu grein um klæðskiptinga og kynskiptinga. Stelpustráka og strákastelpur. Þar stendur meðal annars:
“Þó að flest trúarbrögð líti á það sem ákaflega eftirsóknarvert að bera innra með sér eiginleika karls og konu, horfir aldrei eins við þegar börn fæðast hvorki af kven né karlkyni. Eins og áður segir, eru þau “leiðrétt” hér á vesturlöndum en víða annarsstaðar eru svona börn drepin við fæðingu. Að sama skapi eru kvenlegir karlmenn (hvað þá karlmenn sem vilja bregða sér í kvenmannsföt) ekki taldir miklir dáðadrengir og það telst ekki fínt að vera “stelpustrákur” eða “píkulegur” karlmaður. Madonna kom þessum hugmyndum inn í texta hjá sér á nýlegri plötu þar sem hún segir orðrétt í laginu What it feels like for a girl:
Girls can wear jeans
And cut their hair short
Wear shirts and boots
‘Cause it’s OK to be a boy
But for a boy to look like a girl is degrading
‘Cause you think that being a girl is degrading
Snari maður þessum texta yfir á móðurmálið þá er hann nokkurnveginn svona:
Stelpur geta klæðst gallabuxum
Og verið stuttklipptar
Klætt sig í skyrtur og boli
-Því það er allt í lagi að vera strákur
En þegar strákur lítur út eins og stelpa þá telst það niðurlægjandi
Því þér finnst niðurlægjandi að vera stelpa…
Þegar konur klæða sig eins og karlmenn og eru á einhvern hátt mjög karlmannlegar, er oftar litið framhjá því og litlar athugasemdir gerðar. Þær er í mesta lagi ályktað að þær séu lesbíur en þá þurfa þær líka að vera afar karlmannlegar.
Skýringuna á þessum mun má kannski finna hjá Grikkjum til forna, en menning okkar vesturlandabúa er jú í stórum dráttum mótuð af þessum mönnum sem álitu karlmanninn þá göfugustu og dásamlegustu veru sem fyrirfannst í gervöllu sólkerfinu.”
SNYRTIVÖRUR ERU MINN FÓTBOLTI
Ég skil ekki hvers vegna það er almennt samþykkt, jafnvel af báðum kynjum, að gera lítið úr áhugamálum kvenna og því sem konum finnst skemmtilegt. Að kvenlegur áhugi á fegurð, pjatti og prjáli sé einhvernvegin meiri hégómi en áhugi á bifreiðum og sporti og að það sé eðlilegt og heilbrigt að taka undir þetta. Það er fínt flott og frábært að vera stelpa og stelpustrákar eru bæði fínir og flottir. Það er bara æði að hafa áhuga á snyrtivörum og það er líka fínt að hafa áhuga á fótbolta. Annað er ekkert merkilegra en hitt. Það kvenlega er jafn gott og hið karlmannlega. Svo einfalt er það.
Tökum okkur á og byrjum í dag að virða okkur sjálfar – að virða konur.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=HDuHbrkIM9M[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.