Það er alltaf verð að leggja áherslu á það út um allt að það sé pláss fyrir alla á jörðinni. Kynhneigð á ekki að skipta máli, holdafar, kynþáttur og fleira og fleira. Við eigum að koma fram við alla jafnt og taka tillit til allra.
Auðvitað er þetta allt rétt og satt og öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir, en mér finnst samt sem áður vera í gangi tvöfeldni og fólk oft ekki samkvæmt sjálfu sér.
Að sjálfsögðu er ég ekki að setja út á það að umburðarlyndi fólks hefur breyst gagnvart mörgum hópum. Minnihlutahópar sem hafa þurft að berjast fyrir tilverurétt sínum standa flest öllum jafnfætis í dag eftir áralanga baráttu við viðhorf fólks sem voru við líði vegna t.d. uppeldis eða vanþekkingar.
Jafnréttisbaráttan hefur komist langt á veg og má segja að kynin standi jafnfætis í flestum málaflokkum. Mín upplifun er samt sem áður sú að okkur hefur farið fram í mörgu hvað varðar viðhorfum okkar til fólks, en okkur fer aftur í mörgu öðru.
Í dag finna margar mæður fyrir því að það er algjört tabú að klæða stúlkur í kjóla, hvað þá bleik föt. Við eigum öll að ala börnin okkar í kynlausu umhverfi og leikföng þeirra eiga helst að vera sem mest hlutlaus. Á meðan verið er að berjast fyrir því að það sé í lagi að vera í holdum þá eru grannar stelpur sem varalita sig litnar hornauga.
Mér persónulega finnst í lagi að kynin hafi sína eiginleika og áhugamál þeirra séu mismunandi. Ég meira segja fagna því!
Mér líkar ekki að reynt sé að troða því upp á mig að ég eigi að hafa áhuga á t.d. bílum af því að ég eigi fullan rétt á því eins og hver annar strákur.
Mér líkar heldur ekki að á meðan við eigum að vera umburðarlyndari gagnvart einum hóp af fólki þá ráðumst við á annan.
Ef það er pláss fyrir alla á þessari blessuðu jörð okkar, afhverju mega stelpur ekki hafa áhuga á snyrtivörum og strákar bílum? Svo inn á milli og út um allt eru til strákar sem hafa áhuga á snyrtivörum og stelpur sem hafa áhuga á bílum.
Ég viðurkenni það alveg að mér þykir ofboðsslega gaman að því að finna fyrir karlmennsku hjá kallinum mínum og myndi ég aldrei vilja gefa frá mér þann eiginleika að vera kona eða að vera ákveðið kyn sem ég er sátt við að vera, en hver og einn á að hafa rétt á því að finnast hann vera kona eða kall eftir því hvað hentar honum eða henni.
Við eigum líka rétt á að vera með ákveðnar skoðanir sama hvort þær eru “réttar” eða “rangar” svo lengi sem við komum fram við fólk á jafnréttisgrundvelli. Kosturinn við skoðanir er nefnilega að þeim er hægt að breyta, þær byggjast á viðhorfum og viðhorf breytast oft með aukinni þekkingu.
Þið megið vera sammála mér eða ósammála. Lesa á milli línanna og skilja mig eða misskilja. En ef það er pláss fyrir alla í heiminum þá hlýt ég að mega hafa þessar skoðanir eða jafnvel skipta þeim út fyrir nýjar.
p.s. Ég er stelpa sem hef meiri áhuga á tölvum og tækni en snyrtivörum, horfi á ofurhetjumyndir og hef æft skotfimi. En eins og svo margar stelpur þá nota ég snyrtivörur, hef skoðanir á þeim og get líka rætt þær yfir kaffibolla og rúnstykki.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.