Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna sumar konur eiga yfirhöfuð börn – já ég sagði það!
Sem móðir finnst mér ekkert dýrmætara en börnin mín og því ég skil ekki að til séu mæður sem ákveða að vaxa augabrúnir á 4 ára dætrum sínum eða kaupa gjafabréf upp á fitusog og gefa sem jólagjöf!
Farah Abraham kom fyrst fram í raunveruleikaþáttunum “16 and pregnant” á sjónvarpsstöðinni MTV. Þar átti hún í stormasömu sambandi við móður sína sem lamdi hana gjarnan og því var líf hennar ekki alltaf dans á rósum. Farah hefur farið í þó nokkrar lýtaaðgerðir eftir þáttinn og einnig leikið í klámmynd sem átti að koma henni á kortið. Kim Kardashian og Paris Hilton komust nú einmitt áfram eftir slíkan gjörning en klámmyndin sló ekki í gegn og nú reynir Farah að gera hvað sem er til þess að vekja athygli á sér.
Farah kom fram í spjallþættinum “Bethenny” fyrir stuttu og viðurkenndi að hafa vaxað augabrúnirnar á 4 ára dóttur sinni. Henni fannst það ekkert tiltökumál þar sem að barnið var jú sofandi á meðan á ,,snyrtingunni” stóð. Farah ákvað að vaxa barnið vegna þess að fólk hafði bent henni á að hún þyrfti nú að gera eitthvað í þessu svo að barnið væri ekki með “unibrow” en það þykir ekki nógu smart á 4 ára gömlu barni!
Hin breska Sarah Burge er önnur móðir sem slær í gegn og verður seint kosin mamma ársins en markmið Söruh í lífinu er að verða ,,Human Barbie” og hefur hún gengist undir ótal lýtaaðgerðir til þess að líta út eins og plastdúkkan fræga.
Sarah ákvað að gefa litlu telpunni sinni sem er sjö ára gömul fitusog í jólagjöf! Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sarah hvetur dætur sínar til að þess að láta breyta útliti sínu því eldri dóttir hennar, sem er 15 ára gömul, var yngsta manneskjan í Bretlandi til að fá bótox sprautað í andlit sitt.
Þá hefur Sarah sagt dætrum sínum að ef þær láti ekki ,,laga sig til” hvað varðar útlitið, þá verði þær forljótar. Hún hvetur þær til að fara í lýtaaðgerðir sem fyrst áður en það er um seinan. Sarah leggur áherslu á ágæti lýtaaðgerða, sérstaklega brjóstastækkunar – svo brjóstin haldist ,,stinn og flott”.
Sem móðir finnst mér hegðun þessara tveggja kvenna vera fyrir neðan allar hellur. Pressan á að líta vel út kemur að hluta til frá samfélaginu en að þær tvær skuli ekki vera með bein í nefinu (kannski horfið eftir lýtaaðgerðirnar) til þess að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra er mér með öllu óskiljanlegt.
Ég get með engu móti verið sammála þessum gjörðum (mitt álit) og ég skil ekki þessa hegðun né hvað er í gangi í höfðinu á þeim tveimur.
Ég vona að við eigum ekki eftir lesa fleiri fréttir af mæðrum sem segja börnunum sínum að þau séu ekki falleg, senda þau í lýtaaðgerðir eða vaxa þau í svefni!
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig