Ég lenti í þeirri ógæfu fyrir nokkrum vikum að vera rænd inni á skemmtistað.
Lagði frá mér jakka og tösku á hátt borð og stóð nákvæmlega við hliðina á hvoru tveggja þegar taskan var allt í einu horfin en ekki jakkinn. Mér leið vitanlega agalega yfir þessu og leitaði og leitaði um allt en ekkert bar á töskunni. Þetta var svo skrítið. Maður er svo grunlaus og það síðasta sem maður reiknar með er að vera rænd snemma kvölds á veitingastað.
Næsta dag fékk ég tölvupóst frá almenninlegum manni sem sagði að hún hefði fundist í bakgarðinum sínum. Það var búin að hella úr henni og snyrtidót, bíllyklar og kreditkort lágu þar eins og hráviði en iPhone síminn minn var þar ekki. Síminn með öllum myndunum, tölvupóstinum og svo framvegis.
Það fyrsta sem ég gerði var að fara á netið og reyna að finna út úr þessu sem kallað er “Find my iPhone” en þá segir staðsetningartækið í símanum manni hvar hann er staddur, en bara svo lengi sem hann er í tengingu við netið. Á tímanum sem leið frá því hann hvarf, ég leitaði á staðnum og komst svo heim í tölvuna höfðu þjófarnir farið með hann inn á Hressó og þar var slökkt á honum.
Ég lá í tölvunni í nokkra daga á eftir alveg miður mín og smellti á refresh takkann á “Find my iPhone” en ekkert bólaði á símanum. Þá fór ég til lögreglunnar og gaf skýrslu sem ég fór svo með í símafélögin en hann hefur ekki enn dúkkað upp.
Í vikunni heyrði ég svo af tveimur stelpum sem fóru á lífið í Reykjavík. Þær áttu báðar iPhone og voru með þá ofan í kirfilega lokuðum töskum sem þær höfðu á öxlinni á dansgólfinu. En þegar þær fóru síðan kátar á barinn að ná sér í bjór var búið að taka símana þeirra úr töskunum. Þjófarnir höfðu þá hreinlega hnuplað símanum upp úr veskjunum þeirra þar sem þær stóðu á dansgólfinu og drifið sig út.
Núna er ég að heyra að það séu einfaldlega alræmd þjófagengi á ferðinni í borginni.
Þeir hafa BARA áhuga á símum. Þeir fylgjast með okkur sem áttum/eigum iPhone eða aðra snjallsíma og láta til skarar skríða þegar fólk er ekki með símann hreinlega í höndunum. Þeir eru ansi snöggir að láta sig hverfa og slökkva um leið á tækinu.
Kveikja síðan ekki aftur fyrr en eftir þrjá mánuði og þá er síminn yfirleitt komin úr landi og í skráningu hjá erlendu fyrirtæki svo það verður ekki nokkur vegur fyrir þig að finna hann aftur. Vasaþjófnaður hefur hingað til ekki tíðkast í Reykjavík og því sjá fagmenn sér bara leik á borði. Og við íslendingarnir eigum bara alls ekki von á svona.
Mín skilaboð til þín með þessu eru því. PASSAÐU SÍMANN ÞINN eins vel og þú mögulega getur ef þú ferð út í mannfjölda og þá sérstaklega ef þú ert úti seint á ferð um helgar.
Það eru vel þjálfaðir þjófar á ferð um borgina sem hafa bara áhuga á símanum þínum og þú átt líklegast aldrei eftir að finna hann aftur.
Mátt endilega deila þessari færslu áfram… það vilja sem flestir vita af þessu.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.