Ég fór einu sinni á sjálfsvarnarnámskeið þegar ég var unglingur. Þá voru okkur stúlkunum kennd ýmis brögð eins og að snúa upp á fingur, sparka í sköflung, pung eða slá á hálsinn – það er að segja ef einhver skildi voga sér að ráðast á okkur.
Annars var okkur bent á að oft virkaði að missa saur eða æla svo að viðkomandi ofbeldismaður missti áhugann. Ég var í raun hræddari eftir námskeiðið en nokkru sinni fyrr og velti oft fyrir mér hvernig ég myndi bregðast við aðstæðum sem slíkum. Gæti ég virkilega varið mig, ef ég kynni það? Samt er ég er svo lítil. Geta smávaxnar konur líka varið sig?
Heyrði fótatak fyrir aftan mig
Rétt eins og í “The Secret” þá var líkt og spurningum mínum hafi verið kastað út í kosmóið og ég fékk að kynnast raunverulegum atburðum. Fyrir nokkrum árum var ég á heimleið eftir afmælisveislu eina nóttina þegar ég bjó í Kaupmannahöfn.
Ég var vön að rölta með símann í annari hendinni og lyklana í hinni. Það voru fáir á ferli og hljóðið undan hælunum bergmálaði í takt við skrefin.
Ég bjó í miðbænum og heimili mitt var skammt undan þegar ég heyrði fótatak fyrir aftan mig. Ég leit snögglega við og sá að þetta var karlmaður í svörtum fötum.
Ég lét símann upp að eyrunum og þóttist eiga samræður við einhvern á hinni línunni og hugsaði um leið hvað þetta væri nú hallærislegt. Eflaust væri ég með óþarfa áhyggjur því lífið er sjaldnast eins og atriði úr bíómynd þar sem vondi karlinn eltir konuna sem er ein á ferli.
Var sem lömuð
Ég gekk örlítið hægar og ákvað að nema staðar örstutt til þess að kanna viðbrögð hans- hann nam einnig staðar. Augu okkar mættust og ég sá það. Hann var á eftir mér. Hjartað fór skyndilega að slá hraðar og titrandi setti ég alla lyklana á kippunni á milli fingranna.
Hausinn fór á fullt að reyna að finna lausnir en “Kill Bill” brögðin voru hvergi nærri. Ég gæti kannski stungið í augun á honum með lyklunum.
Með símann í hendinni en ætti ég að hringja um miðja nótt – hver kæmi að bjarga mér? Það var svo stutt heim, ég gæti náð því. Hver andardráttur varð allt í einu svo hávær að ég var viss um að hann myndi skynja hve hrædd ég væri. Rétt eins rándýrið gerir þegar það ætlar að veiða bráðina. Hann missti skyndilega eitthvað í götuna og ég stökk af stað.
Tók til fótanna og hann á eftir
Ég hljóp hratt, hraðar en nokkru sinni fyrr….og hann á eftir. Í huganum flaug ég að útidyrahurðinni, lykillinn small beint í skráargatið og hurðin opnaðist snögglega.
Ég stökk inn fyrir og heyrði hann nálgast – hurðin ætlaði aldrei að lokast.
Hann stakk fætinum á milli og ég lá á gólfinu, sparkandi í hurðina af öllum krafti. Ég meiddi hann og hurðin skall aftur. Svo varð þögn fyrir utan og ég titraði eins og hrísla – óhult, í þetta sinn.
Samkvæmt hinum ýmsu sjálfsvarnarráðum gerði ég margt rangt þetta kvöld en hafði einfaldlega heppnina með mér. Ég mæli að sjálfsögðu með því að fara á sjálfvarnarnámskeið og læra grunnatriðin.
Vertu vakandi og tilbúin að bregðast snögglega við
Mikilvægt er þó að vera vakandi, skoða aðstæður vel í kringum sig og vera tilbúin að bregðast við snögglega. Svo er um að gera að láta fólk vita af sér og alls ekki vera ein á ferli.
Ef þú skynjar að þér sé veitt eftirför skaltu gera viðkomandi ljóst að þú vitir af honum.
Einnig er sniðugt fyrir alla að nálgast smáforritið STAYSAFE. Það gæti aðstoðað þig ef þú lendir í slæmum aðstæðum. Smáforritið sendir email eða skilaboð um staðsetningu þína til nánustu vina eða ættingja sem geta komið þér til hjálpar.
Það er aldrei að vita, það gæti jafnvel bjargað lífi þínu.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!