Sláum við garðana, reitum beðin, klippum runna… málum hús og girðingar og hirðum rusl? Hvernig stendur þú þig í að halda þínu nánasta umhverfi fallegu og sómasamlegu? Hvernig finnst þér borgaryfirvöld standa sig á þessu sviði?
Ég átti skemmtilegt spjall við mikinn fagurkera um daginn. Konu sem er fædd í merki vogarinnar, merkinu sem stendur fyrir fegurð og jafnvægi.
Við vorum að rabba um daginn og veginn og meðal þess sem barst í tal voru ferðir út á land. Daman kom mér svolítið á óvart þegar hún sagðist lítinn áhuga hafa á því að ferðast um landið, henni þykir reyndar náttúran dásamleg og falleg en þorpin og bæirnir einfaldlega of ljótir. Húsin illa hirt, garðarnir í órækt og njóli og gras sprettur á milli gangstéttarhella. Hún sagði að þetta spillti ánægju sinni full mikið og því sleppir hún því heldur að fara um þessa staði.
Reyndar talaði hún um að Reykjavík væri svona líka, almennt hefði fólk ekki nægilega mikinn áhuga á að sinna umhverfi sínu og það sama mætti segja um borgina sem leggur ekki nægilega mikla áherslu á að fegra miðbæinn og umhverfið svo að við sem hér búum og ferðamenn fái notið þess í botn að vera hérna.
Eftir stutta umhugsun skildi ég alveg hvað hún er að fara.
Ég gleymi því ekki þegar ég vappaði niður Laugaveg fyrir mörgum árum með sænskum ferðamanni sem velti því fyrir sér hvers vegna miðborgin væri svona ljót. Skakkir staurar, fullar ruslatunnur, flögnuð málning, lítið um blóm og gróður, fáar styttur… og enginn gosbrunnur þrátt fyrir gnægt af vatni!
Sé borgin borin saman við nágrannalöndin okkar blasir það við að hér mætti margt betur fara og að meiri metnaður á þessu sviði yrði okkur öllum til góða.
Vissulega eru borgir heimsins misfallegar eftir því hvar maður er staddur og ástandið er oftast verra eftir því sem fólk er fátækara en þetta ætti ekki að vera stórkostlegt vandamál á Íslandi og við ættum að geta gert mun betur í að sinna sameiginlegu umhverfi okkar án þess að það kostaði gífurlegar upphæðir.
Kannski væri réttast að standa fyrir átökum hverju vori þar sem efnt væri til samkeppni í hverfum, bæjum og þorpum, veglegum verðlaunum heitið fyrir mestu endurbæturnar, fallegasta garðinn, snyrtilegasta hverfið… Stórfyrirtæki og fjölmiðlar gætu hæglega tekið sig saman, fjallað um málið og veitt þeim sem standa sig best við endurbæturnar flugmiða til heitu landanna, bjórkassa, ostakörfu og lambalæri… svona svo eitthvað sé nefnt!? (Bara hugmynd)
Prófum að líta götuna sem við búum við, hús okkar og garða og velta því fyrir okkur hvort eitthvað mætti betur fara. Stefnum að því saman að fegra þorpin, bæina og borgina okkar… það er svo gott fyrir sálina að nærast í fallegu umhverfi.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.