Það barst í tal í áheyrn barna minna að undirrituð hefði, skömmu eftir fermingu sína, rakað af sér allt hárið.
Dóttir mín sem er á sjöunda ári tók andköf af hlátri og spurði: “Mamma varstu með unglingaveikina?”
Syni mínum á níunda ári var ekki eins brugðið en áréttaði við mig að ég ætti ekki að endurtaka leikinn.
Þar sem hann fékk nýverið svokallaða “Ronaldo klippingu” þá benti ég honum góðlátlega á, að á þessum tíma hefði ég haft dálæti á söngkonunni Sinead O’Connor sem skartaði slíku hárleysi og mig langaði einfaldlega að líkjast henni.
Viðbrögð barna minna voru svo sem alveg í takt við viðbrögð umheimsins á þeim tíma er ég framkvæmdi þetta “voðaverk”.
Það var rétt eins og ég hefði framið einhvern glæp. Ég velti því fyrir mér hvort viðbrögðin hefðu ekki verið öðruvísi ef ég hefði verið strákur?
Ég velti því einnig fyrir mér hvort aðrir hlutir hefðu líka verið öðruvísi ef ég hefði fæðst strákur?
Ég hefði að sjálfsögðu ekki mátt mála mig og tárast eins mikið og ég geri ef ég hefði fæðst strákur án þess að vera litin hornauga. Og vissulega hefði ég ekki getað upplifað að fæða og brjóstfæða þrjú dásamleg börn.
Að því undanskildu þá hefði ég alveg verið til í að vera strákur. Strákum leyfist svo margt:
- Það segir t.d. enginn við strák í vinnuskólanum að hann megi ekki slá með sláttuorf af því það gæti skaðað móðurlífið í honum.
- Strákar fá ekki smáaurabuddu að gjöf meðan systir þeirra fær fáránlega flottan vasahníf.
- Í frystihúsinu fara strákar beint í að aka handlyftara á meðan stelpurnar fara í færibandavinnu og enginn spyr neins.
- Þeim leyfist að vera krúnurakaðir og berir að ofan án þess að heimurinn taki andköf.
- Strákar mega vera í fötum í tónlistarmyndböndum þar sem stelpur mega það ekki.
- Litlir strákar fá að vita að typpið á þeim kallast typpi. Litlar stelpur vita ekki allar að píka heitir píka en ekki klobbi, pjalla, rifa eða klof.
- Það vilja líka “allir” horfa á strákana á HM í knattspyrnu en heldur færri horfa víst á stelpur í knattspyrnu.
- Svo skilst mér að strákar fái hærri laun en stelpur en ég veit svo sem ekki hvað er hæft í því.
Strákar eru bara eitthvað svo æðislegir. Ég er afskaplega heppin að eiga tvo svona stráka. Ég er líka afskaplega heppin að eiga eina svona stelpu.
Og ef hún einhvern daginn krúnurakar sig eða biður um vasahníf þá læt ég ekki standa á mér. Og ég ætla líka að segja henni að þetta með sláttuorfið sé lygi.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come