Ég horfði á viðtal við foreldra ellefu ára drengs sem fyrirfór sér vegna þess að hann var lagður í svo mikið einelti. Ég sjálfur sat með móður minni í stofunni heima og þegar foreldrarnir fóru að lýsa barnæsku drengsins fékk ég sting fyrir hjartað. Mér fannst eins og þau væru að lýsa barnæsku minni. Sársaukanum sem fylgir því að kljást við einelti…
Ganga í skólann á hverjum morgni, horfa yfir á skólalóðina og telja í sig kjark til að ganga yfir götuna og ganga fram hjá krökkunum sem þú vissir fyrir víst að myndu slá til þín eða kalla þig ljótum nöfnum.
Einelti er ekki bara einelti sem er erfitt að kljást við í barnæsku heldur sker það svo djúp og stór sár í sálu mans, sár sem þarf svo að vinna með það sem eftir er lífsins.
Það er vinnan mín en þetta hefur ekki verið auðveldur róður
Í dag starfa ég sem förðunarfræðingur en hef þó þurft að kljást við margskonar vandamál sem fylgdu barnæskunni og geri það en í dag. Ég mála fólk geri það fallegt og dreg fram það besta í fari þess. Það er vinnan mín en þetta hefur ekki verið auðveldur róður !
Fyrir tveimur árum þegar mér leið mjög illa ákvað ég að ég þyrfti að hleypa eitthvað af þessum sársauka út. Ég man eftir því að ég keyrði út úr bænum og endaði á gömlu meðferðarstofuninni sem ég var vistaður á í eitt ár. Yndisleg náttúra er allt um kring þar sem húsið stóð. Ég gekk inn í dalinn, lagðist niður í grasið og horfði upp til himins. Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég gæti gert til að vinna úr þessum sársauka og neikvæðu tilfinningum, hvernig gæti ég komið þessu út? Hvað gat ég gert við þessar tilfinningar?
Í leit minni að frelsi frá ótta og óöryggi rann upp fyrir mér að kannski ætti ég að koma þessu öllu út úr sálarfylgsnum mínu í vinnu minni, mála mig frá kvíðanum, sársaukanum og þráhyggjunni. Það hefur tekið mig tíma og þolinmæði að komast á þann stað sem ég er í dag, en vinna mín hefur sannarlega hjálpa mér til að leysa úr læðingi allan þann sársauka sem einelti hefur gert mér!
Ég finn mig knúinn til að byrja skrif mín hér með þessu sem þú hefur þegar lesið til að þú fáir betur skilið hver ég er og hvaðan ég kem !
En nóg um mig í bili….
Fou D’Absinte
Ég er hér til að skrifa um það sem er að gerast á þessu fallega landi og hvað það er sem heillar mig. Ég hef alltaf verið heillaður af góðum ilmum og fæ þá svolítið á heilann. Móðir mín gaf mér yndislega lykt í afmælisgjöf sem ég verð að fá að deila með ykkur.
Þetta er lykt frá franskri ilmvatnskeðju sem heitir L’artistan og eru ilmirnir seldir hjá Aurum á Laugavegi.
Ilmurinn sem ég fékk heitir Fou d’Absinthe og ber ilmurinn mikla dulúð sem erfitt er að lesa úr en þegar þú lest dýpra inn í nóturnar þá finnuru fyrir krydduðum blæ með vott af munúðarfullum tóni af patchouli og furunálum.
Ef ég ætti að getað lýst ilminum þá er hann eins og manneskja sem ber með sér mikla dulúð. Hann er djúpur og verulega aðlaðandi, heldur tóni af kryddum og brómberi en grípur mann með kynörvandi undirtóni af patchouli og hlýjum brenndum keim sem harmonerar fullkomnlega í samsetningu ilmsins.
Fou D’Absinte!
Ísak Freyr Helgason er menntaður förðunarfræðingur. Hann útskrifaðist úr EMM árið 2007, þá 17 ára gamall. Síðan þá hefur Ísak starfað um víðan völl og komið að mörgum og ólíkum verkefnum af ýmsum stærðargráðum.