Fyrir helgi var vægast sagt skelfileg grein í Fréttatímanum, grein sem ber heitið „Týndu stúlkurnar“. Greinin segir frá kornungum stúlkum sem fikta við ýmis ólögleg efni, eiturlyf, lenda í ógöngum, vantar fé fyrir næsta skammti og skipta þá gjarnan á eiturlyfjum og afnotum af líkama sínum.
Aðrar leita eftir húsaskjóli hjá aðilum sem síðan notfæra sér aðstöðu þeirra og varnarleysi.
Hér er ekki verið að segja frá einhverju sem er að gerast í Hamborg eða í Amsterdam, nei, þetta er hrár íslenskur raunveruleiki, skelfilegir hlutir sem eru að gerast allt í kringum okkur hér á Íslandi í dag, 2013.
Það líður varla sú vika að ekki sé auglýst eftir ungum stúlkum af lögreglunni, stúlkum sem hefur ekki sést til í einhverja daga. Þetta vandamál er að vísu ekki einskorðað við unglingsstúlkur, það er líka auglýst eftir ungum piltum sem hafa þá jafnvel lent í svipuðum aðstæðum og stúlkurnar. Þó þetta eigi alls ekki við öll þau ungmenni sem lögreglan lýsir eftir þá á þetta ástand við um alltof mörg þeirra.
Hvað veldur því að unglingar fara að prófa eiturlyf?
Ástæðurnar eru vafalítið margar, t.d. þrýstingur frá „góðum vinum“ sem þau líta upp til eða„gjafmildi“ sölumanna sem ætla sér að góma fasta viðskiptavini. Oftar en ekki er vafalítið líka verið að flýja aðstæður, flýja hinn ískalda raunveruleika sem unglingarnir hafa af einhverjum ástæðum komið sér í – eða verið troðið í af hálfu ofbeldismanna sem hafa á einhvern hátt gert á hlut þeirra. Líkamlegt eða andlegt ofbeldi jafnvel af hálfu aðila sem unga fólkið á að geta treyst, eða t.d. langvarandi einelti, eru dæmi um form ofbeldis sem geta hæglega leitt til einangrunar og þunglyndis. Þá er oft eina leiðin að flýja raunveruleikann, þ.e. unglingunum finnst flótti eina undankomuleiðin, flótti um stundarsakir sem skilar svo engu öðru en enn meiri sársauka, enn meiri hörmung og svartnætti.
Hvað er hægt að gera til að koma þessu óhamingjusömu ungmennum til hjálpar áður en það verður of seint? Í fyrrnefndri blaðagrein kemur fram að ekkert neyðarskýli sé opið þar sem unglingarnir geti leitað sér skjóls. Sé það rétt hlýtur að vera nauðsynlegt að gera eitthvað í þeim málum. Það er tilgangslaust að loka augunum fyrir þessum staðreyndum sem enginn vill vita af. Vandinn á þá bara eftir að aukast.
Hvað getur þú lagt að mörkum?
Næst þegar þú lítur yfir barnahópinn í stórfjölskyldu þinni, leiddu þá hugann að því hvort einhver unglinganna í hópnum sé kominn í áhættuhóp hvað þetta varðar. Hvað getur þú lagt að mörkum til að hjálpa þeim ungmennum sem eru í fjölskyldunni þinni? Hver veit nema einn unglinganna sem nú í vetur leitar sér skjóls í dimmum kjallaragangi, inni í köldum skúr, í einhverjum trjágarði eða jafnvel hjá sér mun eldri einstakling sem fær afnot af líkama hans eða hennar í skiptum fyrir áfengi, eiturlyf og húsaskjól, hver veit nema hér sé um að ræða ungling sem er nátengdur þér.
Hjálpumst að við að byggja upp og styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi unga fólksins okkar þannig að ekki komi til þess að þau leiti á náðir slævandi lyfja til að þora fara í gegnum næsta dag. Hlustum á krakkana. Leyfum þeim að finna að við höfum áhuga á þeim sem heilbrigðum einstaklingum með sínar eigin skoðanir.
Byggjum um traust þannig að þau þori að leita til okkar þegar eitthvað er að. Sýnum þeim skilyrðislausa ást. Hjálpum þeim til að komast í gegnum mótlæti lífsins og finna gleði í heilbrigðu líferni.
Með góðri kveðju
Jóna Björg Sætran, M.Ed., www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!