Við hjónin vorum búin að bíða spennt eftir ferð okkar til Boston sem var fyrirhuguð nú í septembermánuði en þegar pjattrófan mætti í bankann þá kom annað í ljós.
Mikill undirbúningur og skipulag var búinn að fara í ferðina, allar verslanir skoðaðar gaumgæfilega á netinu og veitingastaðirnir -ekki má gleyma þeim, við þurfum að sjálfsöguð að nærast á milli búða. Þetta var allt þaulplanað.
Pössunin var komin á hreint fyrir löngu og ég skundaði í bankann í gær, alsæl með lífið enda þrír dagar í brottför.
Þegar gjaldkerinn er búin að telja dollarana og skoðar bókunarnúmerið og farseðilinn þá spyr hún mig hvenær ég sé að fara út og ég svara “á föstudaginn”. Þá lítur hún á mig og segir “Rannveig. Dagsetningin á farseðlinum er í nóvember”!
Ég fer í panik og bið hana að bíða með dollarana í smá stund þar sem ég þurfi að fara heim til þess að athuga þetta betur.
Ég bruna heim, bölva sjálfri mér fyrir klaufaskapinn, kíki á farseðilinn, rannsaka tölvupóstinn og jú viti menn á farseðlinum stóð 21.11.2012! Nú eru góð ráð dýr! Ég hringi gersamlega miður mín í söludeild Icelandair og tala þar við yndæla konu sem heitir Margrét og útskýri hvað sé á seyði. Við héldum að ferðin væri í september en ekki í nóvember.
Margrét hringir til baka og segir að þar sem það eru fleiri en 31 dagur í brottför þá eigi ég að fá ferðina endurgreidda að undanskildum 15.000 krónum á hvorn farseðil (örugglega þjónustugjöld eða álíka). Ég sendi póst á söludeild pakkatilboða og fæ síðan tölvupóst morguninn eftir um að ég fái ferðina endurgreiddda. Fjúff!
Þegar við ákváðum að hætta við Boston vildi ég rjúka beint til Glasgow eða bara eitthvað til að komast í burtu (var ennþá í óráði og stresskasti) en eiginmaðurinn var sallarólegur. Hann skoðaði heimasíðu Icelandair og fann pakkaferð til Minneapolis í október enda langar okkur til USA enda hefur hvorugt farið þangað.
Ég vil þakka Icelandair fyrir skjót og góð viðbrögð og bíð með spenning í maganum að fá að kíkja í stærstu verslunarmiðstöð Bandaríkjanna. Rannveig í mollinu!
Af sögu þessari kæru vinir skulum við draga þann lærdóm að kíkja vel á dagsetningarnar þegar þið pantið ykkur utanlandsferð.
Eftir að ég sagði frá þessu þá hef ég heyrt margar skondnar sögur af fólki og flugferðum þeirra sem mættu annaðhvort of seint eða snemma á flugvöllinn, jafnvel svo skeikaði vikum!
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig