Eyjan okkar fagra og kalda er afskekkt það er óhætt að segja það. Engin landamæri, bara við eyjarskeggjar, punktur og basta. Lítil þorp eru hér og þar um landið og tískan í þorpunum varð mér umhugsunarefni.
Ég bý í um 3000 manna bæjarfélagi og þegar ég keyri um bæinn eða fer í búðina (sem gerist endrum og eins hjá húsmóðurinni) – þá velti ég því fyrir mér hvort ungu stelpurnar hafi allar verið settar í sama steypumótið?
Sítt hár er hámóðins í dag og því síðara því betra. Alls EKKI stíga út fyrir rammann, nei nei það má ekki. 66°norður úlpurnar eru líka sjóðheitar, enda er skítkalt nema í fjóra mánuði á ári. Spurningin er bara þessi – Þarf barn sem er í fimmta bekk að eiga slíka flík sem kostar tæpar fjörtíu þúsund krónur? Timberland skórnir eru einnig ómissandi en parið af þeim kostar líka skildinginn.
Mig minnir að þetta hafi verið aðeins öðruvísi þegar ég var unglingur; ég var algjör strákastelpa, spilaði fótbolta og var alltaf í Adidasgallanum. Ég held að ég hafi eignast mínar fyrstu gallabuxur í tíunda bekk og spáði voða lítið í tísku, hári eða förðun.
Eitt er samt víst að það er alltaf eitthvað “trend” í gangi hverju sinni, sumir hafa efni á trendum hvers tíma á meðan aðrir hafa það ekki. Mér finnst til dæmis sextíuþúsund króna “trend” vera ansi kostnaðarsamt.
Skórnir fást í USA og eru eitthvað ódýrari þar en úlpurnar eru íslenskar seljast eins og heitar lummur á netheimum þegar einhver vill selja sína flík, það er hreinlega slegist um þær þó þær séu notaðar.
Fjölbreytileikinn er fallegur og heillandi að mínu mati, ég er persónulega sjálf orðin ansi þreytt á þessum stöðluðu útlitum í samfélaginu í dag. Hárið mitt er ekki sítt, ég á ekki 66°norður úlpu og enga Timberland skó en ég hef samt gaman af tísku og öðru tískutengdu.
Hverjar eru fyrirmyndirnar?
Nú var ég að ræða við vinkonur mínar sem búa á Höfuðborgarsvæðinu og þær sögðust ekki sjá stelpur í 66°norður úlpum eða Timberland skóm en hárið já SÍÐA hárið er sjóðandi heitt, svo heitt að það er varla að finna stutthærða stelpu á landinu.
Ég hugsa að tískutrendin fari samt eftir því hvar þú býrð. Það er áreiðanlega öðruvísi tíska á Hellu heldur en í Grindavík. Hópþrýstingur er mikill í litlum bæjarfélögum og margir hreinlega keppast um það að vera eins eða verða meiri og eiga meira en nágranninn.
Bert á milli tískan virðist engan enda ætla að taka, ekki veit ég hvort mér finnst þetta ekki smart því ég er með mömmumaga og langar ekki að ganga í svona eða að mér finnst þetta bara alls ekki smart því þetta er ekki smart (hvað eru mörg smart í því??). Ekki má gleyma Jeffrey Campell stultunum sem eru svo hættulegar að stúlkur fótbrjóta sig við það eitt að máta þá.
Það sem ég er að reyna að segja með þessum pistli er að við þurfum ekki að vera öll í sama steypumótinu, elskum okkur sjálf, kennum börnunum okkar að elska sig líka og kennum þeim góða siði og að það skiptir ekki öllu að eiga það sama og næsti maður eða kona, strákur eða stelpa.
Elskum fjölbreytileikann og friðinn!
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig