Ég hugsa þetta svo oft þegar ég geng með hundinn um hverfið mitt. Hvers vegna í ósköpunum notar fólk ekki þessa fínu bílskúra í þeim tilgangi sem þeim er ætlaður. Fyrir bílinn!
Það eru fá lönd á jörðinni sem fara jafn illa með bíla og þetta blessaða land okkar. Og veturnir geta verið svo kaldir og dimmir og leiðinlegir.
Þú kemur út klukkan hálf átta um morgun og skemmtunin hefst á því að þú þarft að moka nokkur kíló af snjó af bílnum. Fyrst notarðu kúst á þakið og svo er það að skafa hann allann hringinn. Oft er glugginn hélaður svo það þarf að hamast rækilega með sköfunni. Þú ert komin með rautt nef og meikið er hlaupið í kekki á kinnunum þegar þú loks sest inn í ískaldann bílinn og kveikir á hressu morgunútvarpinu!
Væri ekki draumur að geta gengið beint inn í bílinn sinn úr bílskúrnum?!
Tipla eitt tvö þrep á huggulegum hælaskóm úr þvottahúsi og inn í bíl. Með ferðalatteglas í annari. Smella á fjarstýringuna, hurðin opnast og þú bakkar út… Bíllinn alveg hreinn og fínn, enginn snjór, ekkert vesen. Kannski annað á heimleiðinni en að minnsta kosti yrði morguninn talsvert þægilegri.
Nei, nei… skúrinn er fyrir allt annað en bílinn! Hann er fyrir “drasl”. (Já og í sumum tilfellum afdrep fyrir aðþrengda eiginmenn.)
Mig grunar að svona 95% allra sem eiga bílskúr á Íslandi hafi kannski einu sinni eða tvisvar keyrt bílinn þar inn. Síðan fór bílskúrinn að fyllast af allskonar dóti sem enginn veit lengur hvar eða hvað er.
Væri ekki ráð að taka til í skúrnum, selja dótið í Kolaportinu eða á Bland.is græða smá peninga og minnka svo viðhaldskostnað á bílnum í leiðinni? Ég bara spyr (á innsoginu).
Ég myndi að minnsta kosti gera það – ætti ég bílskúr.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.