Jafn mikilvægt og það er að finna sig í tískunni og vita hvað klæðir þig best getur verið alveg jafn gaman að finna nýjar útfærslur á stílnum og endurnýja útlitið að einhverju leiti.
Það getur verið kúnst að breyta til. Stundum erum við alltof vanföst og tökum ekki eftir því að það er kominn tími á breytingar.
- Hvað er orðið þreytt?
- Hvað gengur ennþá og hverju má við bæta til að gera góðan stíl enn betri?
Mér datt þetta í hug þar sem ég sat í hádegispásunni minni og gæddi mér á næstum líflausri blöndu úr salatbarnum í 10-11 í Austurstræti. Um leið og ég lofaði því að borða aldrei aftur harðsoðið egg með gúrkusneiðum og paprikurifrildi á þessum volaða stað fór ég að horfa á mannlífið ganga fram hjá glugganum. Þarna voru nokkur kunnuleg andlit, meðal þeirra sem ég sá var Sigurður Pálsson skáld.
Nú er Sigurður maðurinn sem getur hrifið hvern sem er með sjarmerandi ljóðum og frásögnum frá París. Klæðaburðurinn er ekki alveg í sama klassa, hann er nefnilega alltaf nákvæmlega eins: Skósíður frakki og svört sólgleraugu, trefill ef það er kalt. Þetta er flottur og eilítið franskur stíll en smá tilbreyting væri engu að síður smart.
Það er svipað með fatastíl og hárið; þó þú hafir dottið niður á skemmtilega hárgreiðslu má alveg breyta til og prófa nýtt útlit. Svo dæmi sé tekið af þjóðþekktri konu, væri spennandi að sjá sætu söngkonuna Ragnhildi Gísladóttur með nýja línu í hárinu. Hún er smart kona og með dálítið afgerandi klippingu þar sem hún rakar af sér hárið að hluta. Mér fannst þetta spesflott þegar ég sá það fyrst en núna finnst mér þetta orðið þreytt og bíð spennt eftir nýrri hárgreiðslu, lit eða lúkki frá söngdívunni.
Það má líka uppfæra andlitsförðun. Ég hef sjálf margoft dottið í eitthvert hjólfar og bara legið þar þangað til ég áttaði mig. Einu sinni notaði ég til dæmis alltaf svarbrúna varaliti. Þvílík hörmung að nota svona dökka varaliti eingöngu, frekar hefði ég mátt poppa upp og nota ljósa varaliti með mikilli augnförðun eða öfugt. Það er bara svo auðvelt að gleyma sér, falla í rútínuna í stað þess að vera eilítið djarfur og prófa nýtt.
Hver kannast til dæmis ekki við fiðrilda-augnahárin á sjónvarpskonunni Völu Matt? Hún tók upp á því að setja milljón umferðir afmaskara á augnhárin og það klæddi hana bara nokkuð vel en þetta er dálítið áberandi augnförðun og þegar hún er alltaf eins verður hún tilbreytingarlaus. Þessi fallega kona gat valið úr mörgum útfærslum af augnförðun en þessi fiðrildafílíngur varð alltaf ofan á. Æ.
Svona má spekúlera um hin ýmsu stílbrögð daginn út og inn. Svo er fólk auðvitað misjafnt, sumir þurfa alltaf að vera að breyta til á meðan aðrir eru svona líka agalega sáttir við útlit sitt.
Persónulega hef ég meira gaman af örlitlum breytingum annað slagið.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.