Rósa Guðbjarts bæjarstjóri og matgæðingur með meiru skrifaði stundum á pjattið þegar við vorum að byrja árið 2009. Hér er ein girnileg af hennar grilli.
Fátt er girnilegra af grillinu en hnausþykkur, heimagerður hamborgari, blandaður ferskum kryddjurtum, prýddur lauk, salati og fleiru. Enda er hamborgari ekki sama og hamborgari eins margvíslegir og þeir geta verið.
Hér gef ég uppskrift að svakalega djúsí hamborgara sem er undir töluverðum ítölskum áhrifum hvað bragðið varðar en auk kryddjurtanna, blandaði ég pepperóníbitum og pítsusósu við hakkið.
Þetta kom mjög vel út og er skemmtileg tilbreyting. Gott er að bera fram grillaða kartöflubáta með borgurunum. Uppskriftin er fyrir fjóra hamborgara.
INNIHALD
- 500 g nautahakk
- 50-60 g pepperóní, saxað smátt
- 1 dl pítsusósa
- handfylli ferskar kryddjurtir, sbr. basilíka og/eða steinselja, skorið smátt
- (notið annars 1-2 msk. þurrkaðar kryddjurtir ef þær fersku eru ekki við höndina)
- ½ dl graslaukur eða skallotlaukur, smátt saxaður
- salt, grófmalaður pipar, pítsukrydd eða ítölsk kryddblanda að smekk
- ferskur mozzarellaostur, sneiddur
Aðferð
Blandið öllu mjög vel saman og mótið þykka og fína hamborgara. Grillið í 2-3 mínútur á hvorri hlið, fer eftir stærð og þykkt borgaranna. Setjið ostsneið ofan á borgarana rétt í lok eldunartímans og látið ostinn byrja að bráðna. Hitið hamborgarabrauðin, smyrjið þau pítsusósu, setjið grænt salat og síðan hamborgarann. Mjög gott er að setja rauðlaukssneiðar á toppinn og skreyta með basilíku.
Þau sem eru að telja hitaeiningarnar gætu auðveldlega sleppt brauðinu og aukið salatið í staðinn. Og allir sáttir!
Grillaðir, stökkir kartöflubátar
Stökkir, vel kryddaðir kartöflubátar eru girnilegir og ljúffengir. Sjóðið kartöflur í 8-10 mínútur. (eftir stærð) Látið mesta hitann rjúka úr þeim og skerið í báta. Setjið í eldfast mót eða ofnskúffu sem þakin hefur verið bökunarpappír. Dreypið ólífuolíu yfir kartöflubátana og kryddið með grófu salti og nýmöluðum pipar. Einnig er gott að nota hvítlaukskrydd. Bakið við 225 gráður í um 25 mínútur eða þar til bátarnir eru orðnir fallega ljósbrúnir og stökkir.
Njótið!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.