Á ensku er orðið currency notað yfir gjaldmiðla. Sama orð er líka notað yfir streymi í vatni. Málið með peninga er nefninlega það að þeir eru alltaf í flæði og eiga að vera það. Þeir koma og fara. Stundum kemur meira en minna og stundum fer meira en minna, en alltaf flæða þeir.
Í gegnum lífið hef ég kynnst allskonar fólki en ég verð að segja að það fólk sem ég hef kynnst sem hefur átt mest, – hefur líka gefið mest. Það er í flæðinu og það gefur, ekki endilega í formi peninga, heldur líka stuðnings, vináttu, tíma og stundum veraldlegra hluta.
Svo er það fólkið sem tuðar yfir hverri krónu og er alltaf í skortinum. Það tekur engar áhættur og talar alltaf um að “eyða” peningum, – ekki nota þá. Eins og peningar fuðri upp um leið og það kemur mínustala á innistæðuna eða þú lætur frá þér 5000 kall. Nei, þeir fuðra ekki upp. Þú færð alltaf eitthvað í staðenn.
Þetta fólk, sem er mjög upptekið af því að eyða sem minnstu og fara reglubundið yfir hvað þau eiga lítið og skortir mikið, þetta fólk er haldið því sem andlegir fagmenn kalla “skorthugsun”. Með því að vera alltaf í skortinum laða þau skortinn að sér og hafa því aldrei nóg. Eða eins og skáldið sagði: „Það verður sem þú væntir, það vex sem að er hlúð.”
Ef þú talar og hugsar daglega um hvað þú átt og hefur lítið þá máttu bóka að sú staða mun ekki breytast. Ef þú hinsvegar byrjar dagana á að fagna því sem þú átt, og gefa með þér af því sem þú hefur hverju sinni, þá mun meira koma til baka.
Fyrsta reglan fyrir manneskju sem er í skorthugsun ætti að vera að STEINHÆTTA að nota hugtakið að eyða peningum og hugsa og tala frekar um að NOTA peningana. Ég myndi líka mæla með því fyrir skorthugsunarmanneskjuna að taka upp á því að gefa meira af sér, eins og hún getur hverju sinni.
Í bókinni um Lögmálin 7 um velgengni er lagt til að þú komir t.d aldrei tómhent í veislu. Það er réttast að taka alltaf eitthvað með sér, jafnvel þó það séu bara blóm sem þú týnir á leiðinni, súkkulaðistykki eða eitthvað fallegt.
Gefðu líka hrós; ef þú hugsar eitthvað fallegt um aðra manneskju skaltu ekki hika við að segja henni það. Ef einhver segir eitthvað fallegt um einhvern sem þú þekkir, þá skaltu endilega bera það í viðkomandi. Ef einhver sem þú þekkir hefur hæfileika á einhverju sviði, þá skaltu endilega styðja viðkomandi í að láta þá njóta sín.
Gefðu af þér og þú munt fá alltaf til baka, hvort sem er í formi peninga eða annars. Stundum kemur gjöfin úr allt annari átt en þú reiknaðir með, stundum ekki. Svona virkar karma lögmálið.
Taktu eftir gjöfunum sem þér berast. Taktu eftir því sem fólk gerir fyrir þig og þakkaðu fyrir það og taktu eftir að allt í einu byrjar innstæðan á reikningnum hjá þér að hækka og tækifærin streyma til þín.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.