Það er ekki hvað þú vinnur þér mikið inn af peningum heldur hvernig þú ferð með þá sem skiptir öllu máli.
Rík kona verður auðveldlega fátæk og fátæk kona getur orðið vel efnuð með tímanum. Þetta er allt saman afstætt en nokkur atriði eru ekki afstæð, til dæmis eins og það borgar sig að eiga einhversstaðar varasjóð og það er betra að nota reiðufé en kort. Þetta gildir fyrir alla, sama hvað þau eiga mikið af peningum.
Við Íslendingar höfum ekki beint verið til fyrirmyndar í okkar peningamálum enda svo “ung þjóð” að mörgu leiti og ekki langt síðan við hreinlega fengum meira fé milli handa en nóg til að eiga til hnífs og skeiðar.
Í þessari samantekt skoðum við 8 ástæður þess að þú átt kannski ekki alveg nóg af peningum…
1. Þú ert ekki að spara/leggja fyrir
Allir verða að eiga smá varasjóð fyrir erfiða tíma, við vitum aldrei hvað kemur upp á, kannski missum við vinnuna, kannski langar okkur að skilja við makann, kannski koma upp veikindi? Það er nauðsynlegt að eiga að minnsta kosti sjóð með þriggja til sex mánaða launum til góða. Ef þú ert ekki komin með varasjóð núna skaltu setja hann upp í dag og byrja að leggja smátt og smátt inn á hann. Fáðu þjónustufulltrúa eða launagreiðanda til að hjálpa þér með þetta og það er gott að byrja strax þó að þú skuldir enn einhverja peninga annarsstaðar.
2. Þú getur ekki breytt lífsstílnum
Margir eiga erfitt með að hætta gömlum siðum sem voru teknir upp fyrir það herrans ár 2007. Þú veist þú þarft ekkert endilega allt sem ittala hefur framleitt og þú þarft ekki endalausa ‘lönsa’ með vinkonum þínum. Það er allt í lagi að smyrja sér nesti eða taka afganga frá kvöldmatnum með í vinnuna, skreppa svo út að borða annan hvorn föstudag í hádeginu og gera þá vel við sig með vínglasi jafnvel, en þetta þarf ekki að vera oft í viku. Slakaðu aðeins á í lífsstílnum og þú sérð upphæðina hækka á bankareikningunum.
3. Þér finnst gaman að fá þér vínglas – og fara á netið
Nú liggja engar tölulegar staðreyndir fyrir hér á Íslandi en nýleg rannsókn leiddi í ljós að ameríkönum finnst mjög gaman að versla á netinu eftir að þau eru búin að fá sér í glas. Þá er komið heim eftir happy hour, það er kveikt á tölvunni og svo er farið að kaupa inn allskonar fínerí á netinu. En passaðu þig nú að vera alltaf með réttu ráði þegar þú kaupir þér föt. Svo er þetta líka spurning um hvað er keypt; það ekkert víst að þig langi að fara í fjólubláum gervi pels og læraháum stígvélum í vinnuna á morgun þó hugmyndin sé æðisleg eftir 3 glös.
4. Þú eyðir of miklu í snjallsímann
Öll símafyrirtækin eru jú með allskonar trikk til að láta þig borga mikið. Þú átt til dæmis að hringja “frítt” hjá sumum þeirra en auðvitað er það ekkert frítt.
Þú borgar jú alltaf í hverjum mánuði, og meira eftir því sem samtölin verða lengri. Svo förum við á netið og kaupum allskonar smáforrit sem við svo notum kannski lítið sem ekkert. Það er ótrúlegt hvað við getum notað mikið af peningum í símann og það sem honum tengist. Farðu nú sparlega og ekki fara endalaust á 3G netið í símanum. Sjáðu hvað þú getur sparað á þessu. Mældu það.
5. Þú hegðar ekki neyslunni í takt við hækkaða skatta
Um leið og skattar á laun og tekjur eru hækkaðir verður þú að draga úr eyðslu ef þú vilt ekki vera komin í skuldir í árslok. Það verður að endurmeta stöðuna reglulega og fara yfir ráðstöfunartekjur. Best er að gera áætlun og reyna svo í hvívetna að fylgja henni. Inni í þessari áætlun verða að vera plön um sparnað, afborganir og eyðslu eða ráðstöfunartekjur. Ef ekki er hætt við að þú endir í mjög langri skuldahringavitleysu sem getur tekið óratíma að greiða úr.
6. Þú borgar með plasti
Það borgar sig ekki að borga með kredit. Þetta hljómar eins og ráð frá ömmu þinni en margar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem notar peninga, og skammtar sér þá fyrir viku í senn, eyðir talsvert minna en þau sem nota kreditkortin.
Það er eitthvað við það að láta peninga af hendi sem gerir það að verkum að við förum betur með þá. Ef þú getur skaltu byrja fljótlega að borga upp kreditkortin þín og reiða þig á reiðufé eftir nokkra mánuði. Það borgar sig. Og forðastu líka að nota debet kort í búðum.
7. Þú ert með of marga bankareikninga
Rannsóknir hafa sýnt okkur að fólk sem er með allt of marga bankareikninga í gangi eyðir meira en þau sem eru bara með einn, og svo einn sparnaðarreikning. Þessi tala fór alveg upp í 10% minna. Farðu yfir bankareikningana þína og eyddu út þeim sem þú ert ekki að nota.
8. Þú flytur of oft
Það kostar fullt af peningum að skipta um húsnæði og fólk sem gerir þetta oft og iðulega er alltaf að borga meira en þau sem gera þetta sjaldan. Fyrir utan að það krefst andlegrar orku að koma sér fyrir aftur og aftur. Svo kaupum við oftast eitthvað nýtt þegar við flytjum, hvort sem það er málning eða eitthvað dót í IKEA. Reyndu að forðast flutninga ef þú getur og ef ekki þá skaltu vera búin að koma þér upp varasjóðnum sem við töluðum um í atriði nr. 1.
Gangi þér vel!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.