Pattra Sriyanonge er 25 ára tískubloggari sem vert er að fylgjast með. Hún hefur að mínu mati ótrúlega gott auga fyrir litum, formi og samsetningu. Pattra er gift og búsett í Danmörku. Auk þess að skrifa fyrir Trendnet er hún leikkona og húsmóðir. Pattra er meyja en er samt ljón.
Hvað er tíska fyrir þér? Tíska er tjáning, breytileg eftir smekk. Hún er ekki endilega eins og segir til í tískublöðum eða tískupöllum heldur mjög persónubundin óháð aldri, vinsældum, stað eða stund.
Hvaða hönnuðir eru í eftirlæti hjá þér? Í augnablikinu er Isabel Marant í algjöru uppáhaldi en ég er líka hrifin af Alexander Wang, Balenciaga, Marck Jacobs og Matthew Williamsson. En svo ef við tölum um aðeins viðráðanlegri hönnuði eða merki þá er Zara búin að vera ómótstæðileg upp á síðkastið, pínu hættuástand ad labba þar inn. Gestuz&Weekday þykir mér alltaf flott, Danir og Svíar kunna að hanna.
Hvar kaupirðu helst föt? Weekday hefur verið í miklu eftirlæti hjá mér í dágóðan tíma og ég fer nánast aldrei tómhent út úr henni. Verandi búsett í Danmörku þá kemst ég auðvitað ekki hjá því að nefna H&M en Samsøe Samsøe og Støy Munkholm eru einnig í miklu uppáhaldi, skandínavískt&skemmtilegt. Ég er samt alltaf sökker fyrir vintage og heimsæki gjarnan Nostalgíu þegar ég er Íslandi en Rokk&Rósir var eitt sinn fremst í fararbroddi.
Uppáhalds flíkin núna? Erfitt að gera upp á milli en ég var að kaupa mér ofur fína Miista skó í Einveru með stáltá og hæl og þeir eru gjörsamlega að slá í gegn hjá mér í þægileika-deildinni. Svo er Marc Jacobs pelsjakkinn minn yndislegur í danska vorkuldanum þessa dagana.
Must have í fataskápinn? Hinn fullkomni blazer, litli svarti kjóllinn og “badass” leðurjakki.
Mesta persónulega fashion fail hjá þér? Ætli það sé ekki þegar ég fór í gegnum ”flegna” tímabilið rétt fyrir tvítugt, jeminn einasti. Í dag finnst mér samt fallegt og elegant að vera í flegnu ef það er gert á réttan hátt við rétta flík, en að yfirgefa ekki húsið án þess að brjóstaskoran sjáist er stórskrítið fyrirbæri.
Hvaða trend finnst þér flottast nú í vor? Ég er að fíla 90’s áhrifin sem er búið að vera mjög áberandi og þá sérstaklega “sporty” hliðina sem er fullkomin fyrir vorið/sumarið. ”Bert á milli” sem var allsráðandi í fyrra sumar verður áfram í ár, ég er hrifin af þessu trendi en það er gott að hafa ”less is more” hugtakið í huga og mikilvægt að ofgera ekki. Röndótt er einhvern veginn alltaf í tísku en hefur sjaldan verið eins áberandi og nú.
Uppáhalds snyrtivaran í dag? Burt’s Bees varasalvinn Tinted lip balm sem ég nota daglega, óspart. Beach Sprey í hárið frá Lernberger Stafsing og rósavatn fyrir andlitið frá Jurlique. Því náttúrulegra því betra.
Hvaða snyrtivöru kaupirðu aftur og aftur? Ég hef ætíð verið týpan sem vill alltaf prófa eitthvað nýtt hvað snyrtivörur varðar en fyrir utan vörurnar sem ég nefndi hér rétt að ofan þá er ég dolfallin fyrir Clinique High Impact Extreme volume maskaranum og mun halda áfram með hann.
Galdurinn að góðu útliti? Vildi að ég lumaði á gómsætu leyndarmáli varðandi það en þar sem venjulegu svörin eru á borð við hreyfing, vatn og svefn þá ætla ég að segja að finna hamingjuna og halda rækilega í hana. Sjálf veit ég varla hvað hreyfing er, drekk alls ekki nóg af vatni og sef óeðlilega lítið.
Uppáhalds tísku Icon? Birgitte Bardot, Bianca Jagger, Jane Birkin, Kate Moss -ég er skotin í þeim öllum af mismunandi ástæðum en þær eiga það sameiginlegt að vera óhræddar við að fara sínar eigin leiðir og búa allar yfir óhemju miklum kynþokka.
Versta tímabil tískusögunnar? Mér finnst ómögulegt að svara þessari spurningu þar sem hvert og eitt tímabil hefur sína kosti&galla og hjálpa til við að móta hvort annað enda eru áhrifin enn til staðar í nútímanum. Flestir hafa líka lúmskt gaman af tískuslysum fortíðarinnar, ímyndið ykkur MS án 80’s ballsins. Óhugsandi!
En besta? Ég elska 70’s, Mynstur – Hippar – Bóhem – Kögur – Hattar – Hárið, Oh ég elska hárið bæði hárgreiðslurnar á þessum tíma og söngleikritið.
Eitthvað að lokum? ,,Hamingjusamar konur eru fallegastar” sagði Audrey Hepburn. Eins og kom fram fyrr í viðtalinu er ég sammála þessu spakmæli og ef þú pælir í því þá er mikið sannindi í þessu, ekki satt?
Að lokum grátbið ég um að það hætti að snjóa á stundinni, tærnar mínar þola ekki fleiri fótboltaleiki hjá manninum mínum í þessum kulda. Ég er hamingjusömust í sól&sumaryl og þrái að verða falleg á ný!
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.