Það hefur án efa hreyft við öllum sem horfðu á Kastljósið mánudagskvöldið 23. febrúar átakanlegt viðtal við fjölskyldu Bjarnheiðar Hannesdóttur sem eftir áralanga misnotkun á vatnslosandi lyfjum fór i hjartastopp og hlaut af víðtækan heilaskaða.
Þetta öfluga viðtal ætti svo sannarlega að vera víti til varnaðar og að mínu mati ætti að segja sögu Heiðu i öllum grunnskólum landsins.
Sem lyfjatæknir, og eftir að hafa starfað i apóteki um langt skeið, tel ég brýna þörf á að upplýsa fólk á öllum aldri um áhrif fæðubótaefna á líkamann. Einnig ættu ítarlegar upplýsingar að vera um notkun þvagræsilyfja og hægðarlosandi lyfja til almennings en það ber að gæta fyllstu varúðar með notkun þeirra, hvort sem um er að ræða lyfseðilskyld eða lausasölu lyf.
Við erum að upplifa heilsubyltingu sem tröllríður öllu næstu ár eða áratugi.
Þetta er bransi sem veltir gífurlegum fjárhæðum, fólk virðist gera nánast allt fyrir útlitið (auðvelt að missa sig) við erum gjörn á að fara of geyst af stað, viljum sjá árangur STRAX og það verður auðvelt að fara út af sporinu.
Þessar ýktu töfralausnir geta endað á hræðilegasta máta. Ungar stúlkur þróa með sér brenglaða sjálfsskynjun sem leiðir oftar en ekki til kvíða og þráhyggju varðandi mat og þyngd.
Upplýsum börnin okkar á einlægan og heilbrigðan hátt, verum meðvituð um það dýrmætasta sem við eigum, dýrmætið okkar sem við eigum að virða, hlúa að og elska, við eigum bara eitt eintak og það er sáralítið um varahluti -höfum ávallt hugfast að það getur allt komið fyrir alla!
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.