Heather Dewey-Hagborg er svokallaður upplýsingalistamaður en undanfarin ár hefur hún unnið að því að búa til andlitsmyndir af fólki sem hún prentar út úr þrívíddarprentara sem einskonar skúlptúra.
Þetta þætti líklega voðalega hversdagslegt listform ef ekki væri fyrir áhugaverðar leiðir hennar til að nálgast viðfangsefnið.
Heather Dewey-Hagborg skapar andlitsskúlptúrana sína nefnilega út frá DNA sem hún finnur í tyggjóklessum, sígarettustubbum og hári af götum New York. Upplýsingarnar um DNA-ið setur hún svo inn í tölvuprógram sem setur upp líkan af því hvernig sú manneskja sem býr yfir þessu DNA líti út og út frá því býr Heather til skúlptúrana sína.
Það væri svo sannarlega spennandi að fá að vita hve nákvæm þessi tækni er í því að skapa eftirmyndir af fólki en eins og er er ég allavega ekki viss um að ég myndi vilja fá eitt svona andlit upp á vegg inn í stofu, mér myndi líklega líða aðeins of mikið eins og mannaveiðaranum í The Pest hérna um árið…
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.