Parísarkonan eftir Paula McLain er söguleg skáldsaga um fyrsta hjónaband Ernest Hemingway rithöfundar, sögð frá sjónarhóli konu hans Hadley Richardson.
Það er búið að taka mig margar vikur að byrja á þessari bók og ég get alveg viðurkennt að ef ég væri ekki svo heppin að vera í bókaklúbbi sem tók þessa bók fyrir, þá hefði ég alls ekki lesið hana og þá hefði ég misst af miklu.
Mér fannst þetta nefnilega alveg frábær bók. Ein af þeim sem ég las í einum rykk og fór svo á netið að skoða myndir af fólkinu sem fram kemur í bókinni. Hún heltók mig alveg.
Hemingway giftist Hadley áður en hann varð frægur rithöfundur og bókin fjallar um tímann þar sem hann var enn að ströggla. Hann var með fádæmum vinnuharður, fór út á hverjum morgni og sat við í marga tíma. En hann var líka maður sem ekki var hægt að búa með.
Ekki mátti yrða á hann frá því hann vaknaði og á meðan hann borðaði morgunmat og kom sér út. Það gat nefnilega orðið til þess að hann tapaði stórkostlegri setningu sem hann var að móta í huganum. Það er sko ekki allra að gangast undir svona samband. Að búa með snillingi sem samt hefur ekki sýnt neitt af sinni snilligáfu.
Tíminn er 1920-1930 í Chicago og þaðan liggja leiðir til Parísar því þar er allt að gerast. Það er forvitnilegt að lesa hvernig bóhemlífið í París var á þessum tíma.
Mikil drykkja, samkvæmislífið stundað grimmt og á vetrum þurfti að hvíla sig og fara á skíði til Austurríkis í þrjá mánuði. Á sumrin voru það fínar villur á Spáni og í Frakklandi og þá drukku menn Sherry og borðuðu smákökur í morgunverð. Hið ljúfa líf ekki satt?
En þegar aðeins er potað undir yfirborðið þá er ekki allt sem sýnist. Það er framhjáhald, rígur og stanslaus metingur milli karlanna sem allir voru listamenn. Þetta eru skemmtilegar lýsingar og ótrúlegt að konurnar skuli hafa látið bjóða sér þetta.
Þetta er auðvitað allt annar tími en í dag en þetta eru samt alveg ótrúlegar lýsingar. Hvernig fullfrískar konur höfðu ekkert annað að gera en stunda kaffihús og fara í heimsóknir meðan þær biðu eftir að menn þeirra, listamennirnir, kæmu heim, klæddu sig upp á og skelltu sér út á lífið.
Hadley til að mynda sér um heimilið í fyrstu en það er svo þreytandi að hún kætist mjög þegar hún getur ráðið sér heimilshjálp til að hún hafi aðeins lausari tíma. Fyrir önnum kafna nútímakonu er þetta draumalíf og þó held ég að myndi ekki vilja skipta.
Ég er fegin því að ég var rekin til að lesa þess bók og gef henni fjórar stjörnur.
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.