Ég hefði ekki trúað því en hér í París þar sem tískuhjartað slær er slaufan aðalmálið. Látlaus og einföld en gerir samt svo ótrúlega mikið. Einskonar punktur yfir i-ið.
Hjá Chanel eru slaufur á skónum og á beltunum sem dömurnar hengja á sig miðja. Hjá Valentino eru slaufurnar áberandi, eiginlega eru þær bara að tröllríða öllu hér. Það þykir til dæmis smart að hafa slaufu í hárinu eins og lítil stelpa eða smella slaufu framan á stuttermabol. Svo ef þú vilt kaupa þér einhvern einn hlut, fjárfestu þá í slaufu sem flikkar áreiðanlega upp á hvaða flík sem er – gefur öllu sjarma og þú slaufar þetta með stæl.
Ps. Svo er líka mikil list að hnýta fallega slaufu svo hún verði simmetrísk, en það er allt önnur saga.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.