Fyrsta sunnudag hvers mánaðar er hægt að skreppa ókeypis á Louvre safnið í París og víst er að margir borgarbúar og ferðamenn nýta sér það.
Louvre safnið er merkileg bygging sem er stöðugt verið að breyta og bæta. Frægasta breytingin er vafalaust hinn umdeildi glerpýramidi I. M. Pei, sem hefur verið inngangur safnsins frá árinu 1989.
Louvre safnið er stórkostleg bygging og margir kannast eflaust við safnið úr hinni vinsælu skáldsögu Dan Brown um Da Vinci lykillinn. Louvre hefur verið staðsett í hjarta Parísar frá lokum 12. aldar en París var þá stærsta borg Evrópu og Louvre virkið var byggt til að verja borgina gegn árásum óvinaþjóða. Með tíð og tíma stækkaði Parísarborg og þá var kastalinn styrktur og stækkadur til að auka varnir borgarinnar. Miklu seinna varð kastalinn dvalarstaður François I en síðan var honum umbreytt í tilkomumikla höll sólkonungsins Louis XIV en í kjölfar frönsku byltingunnar árið 1793 varð þessi tilkomumikla höll gerð að safni fyrir Parísarbúa.
Í Louvresafninu er að finna svo margar myndir ad það tæki meðalmanninn nokkur ár að skoða þær allar! Mín uppáhaldsmynd er vafalaust Mona Lisa.
Hún brosir til okkar seiðandi brosi, af hverju veit enginn og hver hún sjálf er ennþá síður. Þegar ég sá hana fyrst tókst ég á loft. Hún er stórkostleg! Fyrir utan það þykir myndin tímamótaverk i myndlistarsögu 15. aldarinnar. Já! Því Leonardo Da Vinci málaði þarna í fyrsta skipti manneskju í forgrunni og landslag fyrir aftan hana!! Slíkt hafði aldrei áður verið gert og þótti afar framúrstefnulegt! Sjón er sögu ríkari!
Myndin að ofan er hinsvegar útgáfa Andy Warhol af Monu Lisu…
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.