Eftir að hafa skoðað búðarglugga hér í höfuðborg tískunnar sýnist mér að eitt það alheitasta fyrir haustið verði stígvél sem ná upp á mið læri!
Þau eru ýmist í svörtu leðri, ljósu eða dökku skinni með sirka 8-9 sentimetra hæl. Svipuð þeim sem Julia Roberts klæddist í Pretty Woman og heillaði þannig gæjann upp úr skónum. Ég slefaði hreinlega þegar ég sá stígvélin góðu í fyrsta skipti hjá Chanel. Herlegheitin þar kosta litlar 1.800 evrur og er þar aðeins um að ræða Prét-á-Porter. Haute couture kostar vafalaust tvöfalt meira…ef ekki þrefalt?
En ég var svo heppin að finna stígvélin líka hjá Zöru en þar kosta þau um 156 evrur sem er bara nokkuð góður díll fyrir skvísu eins og mig.
Fyrir þær sem þora er smart að klæðast míní buxum eða pilsi við stígvélin. Það er alveg ultra-sexý og flott. Eins er ekkert einfaldara en að vera í þröngum jeans sem fara ofan í stígvélin og leggirnir virka óendanlega langir fyrir vikið!
Hér er hægt að sjá myndir af Chanel stígvélunum sem ég var að skoða en þau eru svolítið ólík þessum á myndinni fyrir neðan þó að hæðin sé sú sama.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.