Hér í París hef ég gengið rue du Faubourg St. Honorée fram og tilbaka, að nóttu sem degi.
Hér lúra allar þessar fallegu tískubúðir og fyrir vikið verða þessir nokkur hundruð metrar ansi seinfærir – því hér er svo ótrúlega mikið að skoða. Já, skoða því allt kostar svo hrikalega mikið að það er varla á hvers manns færi.
Eitt það sem mér finnst hvað áhugaverðast er gamla góða tiger og hlébarðamynstrið. Ég hef alltaf verið pínulítið veik fyrir því, þó það sé ansi hreint áberandi og stundum nærri því vúlgar – sumir tengja það einnig við portkonutísku og þrátt fyrir að kumpánar okkar D&G hafi gert mynstrið að hátískuvöru sem viðkvæmustu dömur verða að eignast, þá er það alltaf pínulítið djarft.
Hér í París árið 2009 er tískan djörf. Á eftir portkonustígvélunum góðu – sem við ættum allar að eignast (ef ekki bara til að gleðja manninn okkar á kvöldin, þá fyrir okkar innra djarfa eðli!!) já, á eftir þeim kemur tigermynstrið sterkt inn. Roberto Cavalli, Just Cavalli, Louis Vuitton og Jimmy Choo eru meðal þeirra fjölmörgu sem veðja á dýramynstrið.
…til dæmis eru töskurnar í glugganum hjá Jimmy Choo allar í dökkbleiku eða skærbláu tigermynstri!!
Fyrir þær sem eru eitthvað hikandi er tígurinn eilífur, kemur alltaf aftur í tísku með nokkru millibili. Málið er bara að blanda rétt saman. Það má til dæmis hafa eitthvað eitt lítið tiger og restina hlutlausari. Til að mynda einn lítinn tigerklút frá Louis Vuitton svipaðan þeim og Kate Moss kom á kortið.
Finndu dýrslega eðlið þitt í tígrismynstinu… grr!!!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.