“Ég hef aldrei borgað fyrir kynlíf,” sagði maðurinn sem sat andspænis mér á Cafe de Flore og sötradi kaffið sitt.
“Einmitt það,” hugsaði ég. Mér finnst alltaf áugavert þegar karlmenn vilja endilega taka slíkt fram. Næstum eins og þeir séu að afsaka sig fyrir að hafa einmitt gert það. Og hver er svo sem munurinn á konu og “svoleiðis konu”?
Götustelpurnar eru margar hér í París og á mismunandi stöðum. Frakkar tala til dæmis um að Raichda Dati, fjármálaráðherrann sem klæðist helst aðeins níðþröngum dröktum frá þeim Dolce Gabbana hafi einmitt sofið sig á toppinn. Kannski er hugtakið “þú tekur það sem að þér er rétt” betur viðeigandi hér en þá kemur aftur upp hugsunin að ekkert í þessum heimi sé í raun ókeypis. Útsjónarsamar konur hafa alltaf komið sér á toppinn með einum eða öðrum hætti. Coco Chanel opnaði t.d. búðina sína með dyggri aðstoð elskhuganna sem börðust um ástir hennar og allir þekkja framhaldið.
En ef til vill var vinurinn á Cafe de Flore að tala um hefðbundna starfsemi vændiskvenna Parísarborgar, því hún er virk og mjög áberandi? Það er nóg að heimsækja Pigalle að kvöldlagi eða jafnvel Avenue Montaigne, flottustu tískugötu borgarinnar um hábjartan dag en þar má sjá raðir kvenna sem flestar hafa komið með ólöglegum hætti inn í landið. Og á meðan fólk gengur um og velur sér föt eftir fjárráðum hafa þessar stúlkur kannski ósköp lítið val?
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.