Ég er svo lánssöm að rata mjög vel á fallegustu verslunargötu Parísar, Rue du Faubourg-Saint-Honoré en einmitt í þessari götu eru allar flottustu tískubúðirnar í borginni: Chanel, MiuMiu, Prada, Roberto Cavallli, Colette og Armani svo fátt eitt sé nefnt.
Það er ekki annað hægt en heillast þegar snyrtilegir dyraverðir opna fyrir þér dyrnar að ómótstæðilegum heimi fullum af gersemum…en þannig upplifi ég þessar verslanir. Fötin eru augnakonfekt og verðin svo auðvitað eftir því.
En með því að skoða sig vel og vandlega um í þessum verslunum má sjá hvaða taktur er sleginn í tískunni hverju sinni. Hvaða litur er ráðandi, hvaða mynstur og hvaða snið. Að þessu loknu er ekkert einfaldara en að finna svipuð föt, ef ekki bara hreinar eftirlíkingar í búðum á borð við HM og Zöru.
Til dæmis tók ég eftir æðislegum stuttermabol frá Sonia Rykiel; Bleikröndóttur með stórri nælu í barminum. Það er alveg eins sniðugt að finna svona röndóttan bol í HM og fjárfesta í ódýrri nælu þannig að úr verður jafnvel flottara átfitt en frá Soniu sætu.
Tískuvit Pjattrófa dagsins í dag byggist nefninlega ekki upp á því að vera í dýrustu merkjunum heldur að finna sinn stíl og blanda saman úr ýmsum áttum, hvort sem um er að ræða dýrar eða ódýrar flíkur.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.